Eyðileggingin blasir við blaðamönnum og ljósmyndara mbl.is sem hefur verið hleypt inn á Seyðisfjörð í fylgd lögreglu. Að blaðamönnum frátöldum eru þar engir nema viðbragðsaðilar og sérfræðingar Veðurstofunnar. Þá hefur starfsmönnum frá rafveitu verið hleypt inn í bæinn með varaaflstöð, en rafmagn fór af bænum um tíma í gær.
Engar aðgerðir eru á svæðinu en engum hefur verið hleypt undir hlíðar fjallanna, hvorki lögreglumönnum né öðrum.
Margir Seyðfirðingar dvelja á hótelum á Egilsstöðum eða gista hjá vinum og vandamönnum.
Meðal þess sem má sjá er björgunarsveitarbíll sem flóðið í gær náði til. Þær vinnuvélar sem sjást á myndinni voru þar þegar flóðið féll. Útlit er fyrir að verr hefði getað farið þar sem flóðið virðist hafa farið naumlega fram hjá nokkrum húsum.
Ljóst er að enn er talsverð hætta á skriðum. Rignt hefur eldi og brennisteini í bænum frá því á þriðjudag fyrir rúmri viku, en síðustu sjö daga hefur úrkoman verið 600 millimetrar að sögn Magna Hreins Jónssonar, hópstjóra ofanflóða hjá Veðurstofunni. Til samanburðar er ársúrkoma í Reykjavík um 860 millimetrar, svo vatnsmagnið er gríðarlegt.
Úrkoma hefur þó verið talsvert minni í dag en undanfarna daga heldur en hefur verið síðustu daga, þótt enn séu rigningarskúrir.
Fjöldi lítilla aurskriðna hafa fallið í vikunni, en hæst ber þrjár stórar sem hafa fallið síðustu þrjá sólarhringa. Sú fyrsta féll aðfaranótt fimmtudags, sú næsta aðfaranótt föstudags og hreif hún með sér húsið Breiðablik og flutti það um 50 metra.
Sú þriðja féll í eftirmiðdaginn á föstudag og eru minnst tíu hús skemmd eftir hana. Bærinn var í kjölfarið rýmdur og fær enginn að fara inn nema með leyfi lögreglu.
Magni segir að nú sé verið að kanna ummerki eftir skriðurnar og aðstæður í hlíðunum. Engar upplýsingar hafa þó fengist frá lögreglu um þær aðgerðir sem eru í gangi þar.