Guð sá um sitt og nú er komið að ríkisstjórninni

Ekki er hægt að túlka það öðruvísi en að einhver þarna uppi vaki yfir Seyðfirðingum og hafi tryggt að enginn varð undir tveimur stórum aurskriðum sem féllu á bæinn á föstudag. Þetta segir Davíð Kristinsson, Seyðfirðingur og varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs.

„Fjallið öskraði og svo fer hlíðin, eins og Bubbi sagði,“ segir Davíð í samtali við mbl.is þegar hann lýsir aðdraganda skriðunnar sem hann sá með berum augum og hefur þegar lýst í samtali við mbl.is.

Aurskriðan klofnaði í tvennt og fór sitthvorum megin við húsaþyrpingu þar sem í voru um 25-30 manns. Skriðan skemmdi tíu hús en þau stóðu öll auð. Aðspurður segir Davíð ekki gott að segja af hverju þau voru öll auð enda búseta í hluta þeirra og telur hann að ekki hafi verið búið að rýma þau öll.

Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs.
Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil vinna nauðsynleg svo samfélagið geti blómstrað

Þótt meiri áhersla hafi verið á snjóflóðavarnir en varnir við aurskriðum, segir Davíð að lengi hafi verið vitað af hættunni af aurskriðum. „Það hafa verið alls konar spekúlasjónir og greiningarvinna og farið í einhverjar smáaðgerðir,“ segir hann. „Eða kannski stórar aðgerðir, en í það minnsta aðgerðir sem manni finnst vera smáaðgerðir núna,“ bætir hann við.

Hins vegar sé ljóst að ráðast þurfi í stærri aðgerðir eigi samfélagið að geta haldið áfram að lifa. „Það þarf að klára hana og gera betur ef Seyðisfjörður á að geta blómstrað og dafnað,“ segir hann. Seyðisfjörður sé eitt orkuríkasta byggðarlag landsins, ef ekki heimsins, og forsenda þess sé að íbúar séu ánægðir, líði vel og séu öruggir. „Guð sá um sitt og nú er komið að ríkisstjórninni,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert