„Hann var bara jaxl“

Drangeyjarjarlinn saup marga fjöruna um sína daga. Hér með Lambhöfðann …
Drangeyjarjarlinn saup marga fjöruna um sína daga. Hér með Lambhöfðann í baksýn um það bil 1995. Ljósmynd/Aðsend

„Mig langar til að þetta sé meira um pabba heldur en mig. Ég vil líka alls ekki að þú haldir að ég sé eitthvað merkileg, en hugsanlega hefur fólki fundist ég vera frábrugðin mörgum öðrum konum vegna uppeldisins og áhugamálanna sem ég hef haft í gegnum tíðina.“

Á þessum nótum hefst viðtal við Ástu Birnu Jónsdóttur, Skagfirðing í húð og hár og dóttur Jóns Eiríkssonar Drangeyjarjarls og bónda í Fagranesi á Reykjaströnd sem lést undir lok nóvembermánaðar og varð kannski einna þekktastur fyrir ógurlegt líkamlegt atgervi sitt, bjargsig í Drangey og ferðaþjónustu þar um slóðir, en Jón flutti þúsundir ferðamanna til Drangeyjar, kynnti þá fyrir Grettissögu, bjargsigi og án efa mörgu öðru enda hlaut jarlinn verðskulduð verðlaun fyrir aðkomu sína að ferðaþjónustu skagfirskra árið 2007.

Blaðamaður fellst, þó með hálfum huga, á beiðni dótturinnar sem féllst á að segja mbl.is frá föður sínum og ævistarfi hans. Gegn loforði um einkaviðtal við hana í janúar reyndar. Ásta Birna er þó, þvert ofan í ummæli hennar, stórmerkileg, enda leitun að öðru eins samansafni jaðaráhugamála í einni og sömu konunni. Auk þess að vera ein reyndasta bjargsigskona landsins, aka 1.000 cc vélhjóli á vegum Vélhjólaklúbbs Skagafjarðar og vera á árum áður liðtæk júdókona á vegum Tindastóls er Ásta Birna þjónustustjóri Arion banka á Sauðárkróki og Blönduósi.

Felldu hugi saman og giftu sig

En allt í lagi, orð skulu standa, umfjöllunarefnið hér er Drangeyjarjarlinn, Jón Eiríksson, sem ef til vill mætti lýsa eins og Þórarni Nefjólfssyni, hægri hönd Ólafs helga Noregskonungs, sem var kynjaður norðan um land og djarfmæltur við tigna menn. Jón eignaðist alls tíu börn í tveimur hjónaböndum.

„Ég fæddist í Fagranesi og er af seinna hjónabandi pabba, en bý reyndar í Fagragerði í dag sem er gamla Fagranes sem amma og afi byggðu og ég gerði upp,“ segir Ásta Birna.

„Pabbi eignaðist fimm börn með fyrri konunni, en þau skildu þegar systir mín var nýlega fædd. Það þótti eflaust óvenjulegt þá en strákarnir fjórir ólust upp hjá pabba en systir mín fór með mömmu sinni og kynntist ég henni ekki fyrr en á fullorðinsárum,“ segir júdókonan og sigjaxlinn úr Búnaðarbankanum gamla sem er dóttir Hólmfríðar Heiðbjartar Agnarsdóttur, seinni konu Jóns, en hún lést árið 1997.

„Pabbi að hleypa mér í vaðinn í fyrsta sinn 1990. …
„Pabbi að hleypa mér í vaðinn í fyrsta sinn 1990. Sigurður Ólason Aadnegard bjargstokksmaður í baksýn,“ segir Ásta Birna frá. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna var pabbi með tvo sex ára drengi, einn fjögurra ára og einn tveggja ára. Hann þurfti aðstoð og þannig kom mamma mín til sögunnar. Þarna var mamma rétt rúmlega tvítug, stórglæsileg kona. Ég heyrði að hún hefði ætlað að fara að vinna sem flugfreyja en brást vel við hjálparbeiðninni og þótt talsverður aldursmunur hefði verið á þeim, eða 15 ár, felldu þau hugi saman og giftu sig. Þau eignuðust fjóra drengi og mig, ég er þriðja yngst,“ útskýrir Ásta Birna.

Reyndasta sigkona landsins

„Hann var náttúrulega bara jaxl,“ segir dóttirin og hlær við, spurð hvers lags maður faðir hennar hafi eiginlega verið, frumkvöðull í húð og hár á nútímamælikvarða.

„Pabbi hafði mikla ástríðu fyrir rafmagnsvirkjunum og setti í gang sína fyrstu heimarafstöð 1958, daginn sem elsti drengurinn fæddist. Þá var ekki búið að leggja rafmagn á Reykjaströndina svo það má segja að hann hafi verið brautryðjandi í þessum málum hérna. Pabbi var í lögreglunni, hann stundaði sjóinn, nytjaði Drangey en sagðist sjálfur ekki hafa verið mikið hneigður fyrir búskap,“ segir Ásta Birna eins og ekkert sé sjálfsagðara í Skagafirðinum en að starfa við nánast allt sem í boði er.

Sjálf hefur hún veitt fjölda viðtala við íslenska fjölmiðla og hikaði ríkisútvarpið ekki við að kalla hana reyndustu sigkonu landsins. Er hún það?

„Það veit ég ekkert um,“ segir Ásta Birna og hlær dátt. Í maí ár hvert fer hún þó út í Drangey, sígur þar í björg og tínir langvíuegg eins og enginn sé morgundagurinn. Aðföng þessi eru árstíðarbundin og eggin eru tínd í maí. „Ég hef nú aldrei verið lofthrædd, þetta er kannski dálítil áskorun fyrir fólk sem er það auðvitað,“ segir Ásta Birna glettin. „Drangey er öll úr móbergi og þarna þarf að gæta vel að öryggismálum. Það þarf alveg sjö manns á vaðinn, hann er ekkert léttur þegar hann er kominn í þessa lengd, allt að 150 metra, og ég er ekkert létt sjálf,“ segir bankastarfsmaðurinn og skellir upp úr.

Hældi okkur við aðra

Talinu víkur aftur að föður hennar, hvernig maður var Jón Eiríksson eiginlega?

„Pabbi gat orðið mjög stoltur og ánægður ef við náðum góðum árangri í einhverju en hann var ekki duglegur að hrósa okkur fyrir það, heldur hældi hann okkur frekar við aðra. Hann sagði mér að honum hefði aldrei verið hrósað í uppvextinum því foreldrar hans hefðu sagt að börn yrðu montin ef þeim væri hrósað,“ rifjar Ásta Birna upp.

„Á kráarkvöldi dagvistar aldraðra, pabbi, ég og mágur pabba, Agnar …
„Á kráarkvöldi dagvistar aldraðra, pabbi, ég og mágur pabba, Agnar Búi Agnarsson, en hann dó líka fyrir skömmu,“ segir Ásta Birna. Ljómynd/Aðsend

„Við systkinin vorum oft og iðulega minnt á það að hann væri ,,formaður áfengisvarnarnefndar Skarðshrepps“ og þrátt fyrir það að vera bindindismaður þá fékk hann samt sem áður oft áfengi að gjöf og safnaðist það upp í stofuskápnum. Ég held reyndar að það hafi verið búið að skipta út víni fyrir vatn í ansi mörgum flöskum án þess að hann hafi uppgötvað það,“ segir Ásta Birna og hlær dátt.

Hún segir Kvæðamannafélagið Iðunni hafa verið félagsskap sem faðir hennar naut sín mikið í. „Já, hann gat alveg hnoðað saman vísum eins og hann tók stundum til orða. Það virtist vera honum auðvelt að svara í bundnu máli og gerði hann alveg þó nokkuð af því. Hann var einu sinni að rita fundargerð og einhver kom í pontu sem honum fannst vera að segja einhverja bölvaða vitleysu og þá datt honum í hug þessi vísa:

Ákaft sinnti hann orðastriti,

allt hans bull úr hófi keyrði.

Ekki sagði hann orð af viti,

eftir því sem best ég heyrði.“

Jón Eiríksson hafi þó verið brjóstgóður maður og engan viljað særa. „Hann lét nú alveg vera að setja þessa vísu í fundargerðina, en setti hana á miða og fann svo í vasa sínum löngu seinna. Því miður var hann ekki duglegur að varðveita kveðskapinn sinn, en margt er þó til sem aðrir hafa skrásett eða fengið til dæmis í afmæliskorti eða við önnur tilefni,“ segir dóttirin frá.

Feðginin í ferð um 1995.
Feðginin í ferð um 1995. Ljósmynd/Aðsend

Erfitt að ala upp stelpur

En hvernig var að alast upp með þessu skagfirska heljarmenni sem var þekkt að aflsmunum og hreysti. Og hvernig var að vera stelpa innan um alla bræðurna?

„Það er góð spurning,“ segir Ásta Birna hugsi. „Strákarnir voru í miklum meirihluta í systkinahópnum, ég ólst upp með átta bræðrum og einhvern veginn held ég að pabba hafi fundist auðveldara að ala upp stráka,“ segir hún og hláturinn kumrar niðri í henni í lágum og lúmskum bordún.

„Ég dreg þá ályktun eftir samtal okkar þegar ég gekk með yngri stelpuna mína, þá spurði pabbi mig hvort ég héldi ekki að nú fengi ég strák. Ég sagðist alveg vera til í að eignast aðra stelpu. ,,Æi nei, það er svo erfitt að ala upp stelpur“ sagði hann þá!“ rifjar Ásta Birna upp og skellihlær.

„Ég held að ég hafi ekkert endilega verið eitthvað óþekk, heldur hafi pabba fundist hann þurfa að vernda mig og passa meira en strákana, af því að ég var stelpa, sennilega eitthvað úr gamla tímanum,“ segir júdókappinn sem virðist slík valkyrja að hún geti vel passað upp á sjálfa sig.

Jarlinn með Drangeyjarsundgörpunum Eyjólfi Jónssyni, Axel Kvaran og Pétri Eiríkssyni.
Jarlinn með Drangeyjarsundgörpunum Eyjólfi Jónssyni, Axel Kvaran og Pétri Eiríkssyni. Ljósmynd/Aðsend

„Þótt ég hafi ekki verið neitt sérstaklega viðkvæm eða veikbyggð þá eru bræður mínir allir mjög hraustir og duglegir, erfitt að bera sig saman við slíka menn kannski. Pabbi kenndi mér nokkur „löggubrögð“ svo ég gæti nú bjargað mér ef ég lenti í einhverjum óþokkum, sem betur fer hef ég nú ekki þurft mikið á þeim að halda en ég var ekkert frábrugðin öðrum börnum, þráði athygli foreldranna og fannst notalegt þegar pabbi eyddi dýrmætum tíma sínum í mig, hann kenndi mér að binda hnúta, skjóta af byssu, róa árabát og margt fleira,“ segir Ásta Birna af karli föður sínum.

Meira eða minna á sjónum

Hún segist snemma hafa uppgötvað að eina leiðin til að losna úr heimilisverkunum hafi verið að gera sig alveg nauðsynlega fyrir pabba. „Þannig æxlaðist það að ég fór að fara með honum á sjóinn, á grásleppu og svo í Drangeyjarferðirnar. Flest okkar systkinanna hafa meira eða minna verið eitthvað á sjónum með honum, það var hans líf og yndi. Drangey var eins og annað heimili okkar, eða stór hluti af tilverunni alla tíð,“ segir Ásta Birna og getur illa dulið hve ljúfsárar æskuminningarnar sækja að henni.

„Þegar pabbi var að síga eftir eggjum í Drangey og klífa Kerlinguna [52 metra háan klettadrang suðaustan við Drangey] vorum við yngstu systkinin að príla á stórum steini sem líktist Barbapabba í laginu og þóttumst vera að síga eftir eggjum eins og hann. Í maí á hverju ári fór pabbi með sigflokknum og var þar í viku til tíu daga. Það var nóg að gera á búinu á meðan í miðjum sauðburði, mikið sem mæddi á mömmu á meðan. Ég fékk stundum að fara með henni upp á hól til að reyna að ná sambandi við pabba í talstöðinni og fá fréttir: „Drangey, Drangey, Fagranes kallar“ Svo kom að því að ég fékk að fara með í sigið og fannst mér það mjög spennandi,“ rifjar Ásta Birna upp, nú vanasta sigkona landsins og þótt víðar væri leitað.

Jón Eiríksson á góðri siglingu ásamt Hólmfríði, síðari eiginkonu sinni …
Jón Eiríksson á góðri siglingu ásamt Hólmfríði, síðari eiginkonu sinni og móður Ástu Birnu, líklega upp úr 1990. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var reyndar vön því að þurfa stundum að berjast meira fyrir hlutum sem strákunum fundust sjálfsagðir en það pirraði mig að fá ekki að síga eins og þeir, ég sagði í gríni að pabbi vildi ekki missa mig, ég væri svo nauðsynleg í eldhúsinu,“ segir Ásta Birna hlæjandi.

Öll él birti þó upp um síðir.

„Loksins lét pabbi undan suðinu í mér og ég fékk að fara í kaðalinn, eftir það var ekki aftur snúið. Það kom ekki til greina að sleppa einni vertíð, hvert einasta vor fór ég með sigflokknum í Drangey, meira að segja sleppti ég útskriftaferðinni minni þegar ég varð stúdent því hún var á sama tíma og sigið. Smátt og smátt jókst þátttaka mín en pabba minnkaði. Hann var oft upptekinn við að fara með ferðamenn í Drangey á þessum tíma og þá fékk ég frí,“ segir Ásta Birna frá.

Ekki leynir sér að dóttirin á ljúfar minningar um pabba sáluga.

„Við pabbi gátum setið tímunum saman og rætt hvert einasta sig, hvernig ég hefði borið mig að, hvort ég hefði ekki náð að sveifla mér yfir snösina þarna eða fundið sylluna þarna norðan við, hvort ég hefði snúist eða misst úr sveiflu. Ég furðaði mig stundum á minni hans, en hann var jú sigmaður þarna í yfir 50 ár svo hann er búinn að klappa Drangey ansi mikið í gegnum tíðina,“ segir Ásta Birna.

Hvenær gerðist þetta?

Drangeyjarferðirnar urðu sífellt vinsælli og Jón Eiríksson jarl þar á bæ naut þess að sýna ferðamönnum þessa paradís sem hann hafði svo mikla ást á.

„Hann sagði skemmtilega frá og stundum fannst manni að hann hefði þekkt Gretti og samtíðarmenn hans privat og persónulega sjálfur, svo ljóslifandi urðu frásagnirnar hjá honum,“ segir Ásta Birna. Jón hafi ekki verið sérstakur tungumálamaður „en hann gat samt alltaf bjargað sér og ferðamennirnir hrifust með því sem hann sagði,“ segir Ásta.

Jarlinn stígur ölduna.
Jarlinn stígur ölduna. Ljósmynd/Aðsend

„Eitt sinn þegar hann var að segja ferðamönnum þjóðsöguna um hvernig Drangey, Kerlingin og Karlinn urðu til, að þau hefðu öll orðið að steinum þegar sólin kom upp því þau hefðu verið nátttröll á leið yfir fjörðinn með kúna sína, lifði einn ferðamaðurinn sig svo vel inn í frásögnina að hann spurði pabba: „Jón, hvenær gerðist þetta?“ Pabbi lét ekkert slá sig út af laginu en svaraði „þetta var fyrir sögulegan tíma“.

Við pabbi áttum tíu góð ár saman í ferðunum og ég tel mig vera mjög heppna að hafa fengið að kynnast honum á þennan hátt og held að það hafi líka verið gott og þroskandi fyrir hann að sjá að stelpur gátu nú alveg ýmislegt,“ segir Ásta Birna með brosi sem heyrist frá Skagafirði til Óslóar þar sem blaðamaður er staddur.

„Hann var ánægður með að ég var í björgunarsveitinni,“ segir Ásta Birna og kemur þar inn á líklega hundraðasta áhugamál sitt, Björgunarsveitina Skagfirðingasveit. „Stundum þurfti hann reyndar á björgunarsveitinni að halda þótt aldrei hafi hann lent í neinu alvarlegu, kannski olíuleysi eða minni háttar óhöppum endrum og eins.“

Mikið áfall þegar Hólmfríður lést

Eftir því sem ferðamönnunum fjölgaði og Drangeyjarferðunum óx fiskur um hrygg fór Jón í hafnarframkvæmdir og uppgöngubætur í Drangey og samhliða byggði hann upp ferðaþjónustu á Reykjum, en þar átti hann jarðarhluta og lét hlaða Grettislaug og síðar Jarlslaug.

„Þessar samgöngubætur sem hann lagði í á báðum stöðum voru ótrúlegt þrekvirki, hann átti í mikilli baráttu við náttúruöflin sem gátu lagt margra mánaða vinnu í rúst í einu góðu brimi, en alltaf hélt hann ótrauður áfram og náði að virkja mannskap sér til aðstoðar. Hann átti marga velunnara og vini, sem reyndust honum vel,“ segir dóttirin stolt.

Jón dregur þann gula úr greipum Ægis, maður og náttúra …
Jón dregur þann gula úr greipum Ægis, maður og náttúra sameinast í bjargræðinu. Ljósmynd/Aðsend

„Hann átti kannski ekki alltaf pening til að borga fyrir hjálpina en hann reyndi að launa greiðann á einhvern hátt þótt það kæmi seinna í formi Drangeyjareggja, fisks, kjöts eða bátsferðar. Þegar við fórum að fara út í Drangey frá Reykjum í stað þess að fara frá Sauðárkróki styttist ferðin úr 12 í 4 mílur, það munaði miklu í eldsneyti og tíma. Pabbi fékk fólk í vinnu til að reka ferðaþjónustuna á Reykjum og gekk vel, hann vann til umhverfisverðlauna og fékk ýmsar viðurkenningar fyrir framtak sitt. Hann fékk líka nafnbótina „Drangeyjarjarlinn“ og var í daglegu tali kallaður það og líkaði vel,“ segir Ásta Birna.

Jóni var mikið áfall þegar móðir Ástu Birnu dó úr krabbameini aðeins 53 ára gömul. „Yngsti bróðir minn var 11 ára og pabbi orðinn ellilífeyrisþegi, 68 ára. Það breyttist margt þarna, hann hafði alltaf verið hraustur og kjarkmikill en þetta fékk mikið á hann. Hann hætti með kýrnar, seldi einum bróður mínum hluta af Fagranesi og hætti þar með nánast öllum búskap. Hann fór að einbeita sér enn meira að ferðaþjónustunni og sá yngsti fór að fylgja honum í ferðirnar og ævintýrin sem fylgdu því,“ segir Ásta Birna og rifjar upp ögurstund skagfirsku fjölskyldunnar.

Kunni illa við hliðarlínuna

„Svo liðu árin auðvitað og þótt hugmyndirnar væru óþrjótandi var líkaminn farinn að reskjast. Hann fór þó í síðasta sigið sitt 69 ára gamall og í síðasta gráslepputúrinn sinn 88 ára. Það var erfitt fyrir svona mann að ákveða að setjast í helgan stein, en hann ákvað að leigja einum hálfbróður mínum bátinn og Reyki í fimm ár. Hann fylgdist með og fékk að vera þátttakandi fyrst um sinn og það skipti hann miklu máli að hafa eitthvað um hlutina að segja. Hann átti erfitt með að vera á hliðarlínunni,“ segir Ásta um ævikvöld föður síns, framkvæmdamanns fram í fingurgóma, og rifjar upp að Jón Eiríksson Drangeyjarjarl dó í bol, merktum ferðaþjónustu hans þar sem sagði á brjósti „Ég hef klifið Drangey og snert rætur Íslands.“

Sannarlega gerði Jón Eiríksson Drangeyjarjarl það og meira til á viðburðaríkri ævi. Hvað situr eftir hjá Ástu Birnu eftir að hafa alist upp, nánast ein kvenna í bræðrastóði, hjá föður sínum?

„Pabbi var ákveðinn og atorkusamur maður, ef hann var að sýsla við verkefni sem hann hafði áhuga á komst fátt annað að hjá honum. Hann var jafnframt góðhjartaður og hjálpsamur og mátti ekkert aumt sjá. Maður lýsir honum ekkert í einni setningu,“ segir Ásta Birna Jónsdóttir, skagfirsk valkyrja, júdókona, vélhjólakona, bankastarfsmaður og hreinræktuð pabbastelpa að lokum um föður sinn, Jón Eiríksson Drangeyjarjarl heitinn.

Þessi heimildarmynd frá 1969, Drangeyjarferð, er birt með góðfúslegu leyfi Ríkisútvarpsins og er úr safni þess. Stjórnandi, umsjónarmaður og þulur myndarinnar er Ólafur Ragnarsson en í henni má meðal annars sjá viðtal við Jón Eiríksson heitinn auk þess sem honum er fylgt í björg Drangeyjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert