„Horfði á félaga mína lenda í skriðunni“

Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni og vettvangsstjóri á Seyðisfirði.
Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni og vettvangsstjóri á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðgerðir viðbragðsaðila á Seyðisfirði í dag hafa miðast að því að vera til taks og í hættumati á svæðinu.

Þetta segir Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni og vettvangsstjóri á Seyðisfirði.

„Við höfum verið með dróna og myndatökumenn hér uppi í Botnum, og myndað og skoðað aftur og aftur, og leitað að einhverjum sprungum eða misfellum í brúninni – að einhverju sem gæti mögulega komið niður,“ segir Jens við blaðamann mbl.is á Seyðisfirði.

„Þetta er gagnaöflun fyrir stöðumatsfund í fyrramálið.“

Auk þess er fylgst með þeim verktökum sem þurfa að vinna við innviði rafmagns og fráveitu í firðinum.

Mikið skelfingarástand

Spurður hvort hann hafi óttast að einhver hefði orðið undir skriðunni, um leið og hún féll í gær, kveður hann já við. 

„Ég stóð sjálfur tiltölulega nærri þar sem skriðan kom niður, hér innan við Búðará, og horfði á félaga mína lenda í skriðunni,“ segir Jens og vísar til lögregluþjónanna sem flýja þurftu skriðuna á lögreglubíl.

„Ég vissi af fleiri félögum mínum inni í björgunarsveitarhúsi, og vissi af fólki í Óla [annað hús í bænum]. Fyrstu mínúturnar eftir skriðuna var náttúrulega bara mikið skelfingarástand,“ segir hann.

„Mjög fljótlega fór þetta nú að verða skipulagt. Það var skipulögð í rauninni tæming á svæðinu. Strax bara fimm mínútum eftir að þetta gerist fæ ég vitneskju um að það komust allir út úr Múla og að það komust allir út úr Sæbóli. Þá fór maður að verða rólegri.“

Stóra aurskriðan féll í bæinn um klukkan þrjú í gær.
Stóra aurskriðan féll í bæinn um klukkan þrjú í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hleypt heim við fyrsta tækifæri

Jens segir að nú sé lögð áhersla á að þau gögn, sem aflað sé til að meta stöðuna á svæðinu, komist til skila.

„Og að sjálfsögðu verður fólki sem býr hér hleypt heim við fyrsta tækifæri. Hvort að það verði á morgun eða hinn daginn, ég get ekki svarað því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert