Innflutningsverð nautakjöts hefur lækkað um rúm 21% síðustu tólf mánuði og verð á tollkvóta fyrir nautakjöt frá ESB lækkaði um 40% við síðustu úthlutun með nýrri aðferð.
Á sama tíma hefur verð á innfluttu nautakjöti til neytenda hins vegar hækkað um 2,2%. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu frá Landssambandi kúabænda. Vísað er til skýrslu ASÍ um verðþróun á innfluttu nautakjöti til neytenda.
Fram kemur að meðalkostnaður innflytjenda fyrir innflutt nautakjöt frá Evrópu hafi lækkað úr 2.332 kr á kíló í 1.834 kr. Mest muni um lækkun á hakki og hakkefni. Meðaltalið er lækkun um rúm 21%. Á bak við þetta er bæði lækkað innflutningsverð og lægri tollur. Þrátt fyrir þetta hafi verð á innfluttu nautakjöti hækkað til neytenda. Tekur LK fram að innflytjendur geti ekki borið fyrir sig veikingu íslensku krónunnar. Gögn Hagstofu sýni að gengislækkunin hafi ekki hækkað innkaupsverð.