Núvirt heildarútgjöld ríkisins til ráðuneyta hafa aukist um tugi prósenta síðustu ár. Sé horft til síðustu 13 ára, eða frá efnahagshruninu árið 2008, má sjá gríðarlega aukningu útgjalda til einstaka ráðuneyta. Þetta kemur fram í tölum Stjórnarráðsins, sem Morgunblaðið hefur undir höndum.
Mest hafa framlög aukist til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins eða nær tvöfaldast á tímabilinu. Þar á eftir kemur fjármála- og efnahagsráðuneytið en framlög til ráðuneytisins hafa aukist um 65,6%. Ráðuneytin sem skera sig úr eru utanríkisráðuneytið annars vegar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hins vegar. Þar hafa núvirt framlög lækkað frá árinu 2007.
Aðspurður segist Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ekki geta tjáð sig um ráðstöfun fjármuna innan annarra ráðuneyta. Hins vegar hafi hann lagt mikla áherslu á hagræðingu innan eigin ráðuneytis. Framlög til utanríkisráðuneytisins hafa dregist saman um 2% á framangreindu tímabili. „Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á hagræðingu auk þess að nýta fjármuni eins vel og kostur er. Mínar áherslur hafa snúið að því að minnka yfirbyggingu ríkisins og ég hef sýnt það í verki. Ég hef fækkað útsendum starfsmönnum, lokað sendiskrifstofum og ekki skipað neinn sendiherra,“ segir Guðlaugur og bætir við að hann fagni umræðu um fjármál ríkisins.