Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra sagði í ávarpi á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær, að sannarlega væri möguleiki á því að tillagan um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga yrði ekki flutt á Alþingi á næstunni.
Skammt væri til kosninga og enn hefði frumvarpið um þetta efni ekki verið tekið til efnislegrar umræðu á þingi. Erfitt væri að ljúka umræðum um umdeildari mál þegar stutt væri í kosningar. Þá væri oft auðvelt fyrir pólitíska tækifærissina að reyna að nýta sér það til góðs og til eigin hagsbóta en verkefninu til tjóns. „Ég tek ekki þátt í því,“ segir ráðherrann um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.
Áform um að lögfesta lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga er mjög umdeilt meðal sveitarstjórnarmanna. Tillaga frá fulltrúum í 20 sveitarfélögum um að fallið yrði frá hugmyndum um lögfestingu íbúalágmarks var felld með 67 atkvæðum gegn 54 á rafrænu landsþingi í gær. Ríflega 30 sveitarstjórnarmenn stóðu að tillögunni en fram kom í máli Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns sambandsins, þegar hún setti þingið, að stjórn Sambandsins, að einum undaskildum, legðist gegn því að þessi tillaga sveitarstjórnarfulltrúanna yrði samþykkt.