„Mér detta sögurnar bara í hug. Til dæmis fékk ég hugmyndina að sögunni um hamstrana þegar ég passaðihamstra fyrir frænda minn. Ég les líka mikið og þá detta mér oft einhverjar sögur í hug,“ segir Lára Jónatansdóttir, sex ára stelpa í fyrsta bekk í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi, en hún samdi nýlega bók sem heitir Smásögur Láru, og geymir fjórar sögur eftir þennan upprennandi rithöfund sem myndskreytir líka sögurnar.
„Sögurnar heita Skopparaboltinn sem kunni ekki að skoppa, Minnsta tröll í heimi og litríka húsið, Hamstrarnir sem týndust á nesinu og Óhappadagur Ólínu og Óla. Pabbi minn hjálpaði mér við að búa til bókina. Ég teiknaði myndirnar fyrst á blað, en litla systir mín krotaði á það og þá ákváðum við pabbi að teikna myndir í ipadinum. Þar lærði ég á teikniforrit og svo fann pabbi forrit á netinu til að setja bókina upp til prentunar. Við létum prenta 10 bækur og ætluðum fyrst bara að gefa vinkonum mínum og ættingjum bók í jólagjöf, en núna vilja fleiri fá bók svo við erum búin að panta fleiri. Fólk vill borga fyrir bækurnar og við höfum ákveðið að gefa allan peninginn til Barnaspítala Hringsins,“ segir Lára sem færði Kristínu kennaranum sínum líka eina bók.
Jónatan faðir Láru segir hana hafa spunnið sögur frá því hún var fjögurra ára. „Við höfum verið dugleg að lesa fyrir hana frá því hún var mjög ung. Hún er mikill aðdáandi Láru bókanna eftir Birgittu Haukdal, enda fjallaþær um nöfnu hennar og sú Lára er líka rauðhærð, alveg eins og hún. Fía Sól er í líka í uppáhaldi og bækurnar eftir Ævar vísindamann. Lára er mjög dugleg að lesa sjálf, bæði hér heima og á bókasafninu. Við höfum líka gaman að því að spjalla og pæla saman í hinu og þessu og þá flæða sögurnar fram hjá Láru. Við feðginin höfum haft mjög gaman að þessu bókastússi og Lára er strax farin að huga að næstu bók.“
Lára segist lesa fyrir yngri systur sína og segir henni sögur þegar hún fer á koppinn, svo hún sitji kyrr. „Ég æfi líka dans og fótbolta og finnst það mjög skemmtilegt.“