Allir viðbragðsaðilar og fjölmiðlamenn sem komu til Seyðisfjarðar annars staðar að af landinu voru sendir í sýnatöku fyrir kórónuveirunni í morgun. Ákvörðun um þetta var tekin til að koma í veg fyrir að smit bærist austur með fólki úr öðrum fjórðungum, en ekkert virkt kórónuveirusmit hefur verið á Austurlandi um nokkurt skeið.
Að sögn blaðamanns mbl.is á vettvangi streymdi björgunarsveitarfólk hvaðanæva af landinu austur á Seyðisfjörð eftir að ósköpin dundu þar yfir. Er ljóst var að ekki yrði um mannbjörg að ræða heldur eingöngu rústa- og verðmætabjörgun hafi mörgum hins vegar verið snúið við.
Nákvæmur fjöldi viðbragðsaðila sem er nú á Seyðisfirði liggur ekki fyrir, en Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna, segist í samtali við mbl.is telja að þeir skipti tugum. Sóttvarnir séu í hávegum hafðar og því hafi verið tekin ákvörðun um að senda fólk í sýnatöku.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í gær að ástandið á Seyðisfirði kallaði á ríkar sóttvarnaráðstafanir enda hefði óhjákvæmilega þurft að brjóta þar ýmsar grundvallarsóttvarnaráðstafanir.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort íbúum verður hleypt inn í bæinn í dag. Almannavarnir og lögregla funda með sérfræðingum frá Veðurstofu Íslands nú klukkan níu og að svo búnu verður tilkynnt um framhaldið, sem gæti verið upp úr hádegi.