Gæslan fylgist með fjallinu

„Við fylgjumst með hlíðinni þar sem verið er að vinna …
„Við fylgjumst með hlíðinni þar sem verið er að vinna og gerum þeim sem eru á svæðinu viðvart ef við verðum varir við hreyfingar í hlíðinni.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Varðskipið Týr er inni í Seyðisfirði og í dag mátti sjá starfsmenn Gæslunnar á tveimur bátum að kanna hamfarasvæðið eftir aurskriðurnar. Einar Valsson skipherra á Tý segir að hlutverk Gæslunnar verði að vera til taks og aðstoða eftir bestu getu. 

Voru menn að störfum þegar mbl.is bar að garði um miðjan dag. Í augnablikinu erum við með tvo báta að skanna fjöruna upp á að einhverjir hlutir hafi farið út í sjó,“ segir Einar.

Spurður hvort ekki sé hætta að vera svo nærri landi þar sem skriðuhætta er talin vera segir Einar svo ekki vera. „Nei það er ekki metið sem svo mikil hætta að vera úti á sjó. Það er talið öruggt,“ segir Einar.

Einar Valsson, skipherra á Tý.
Einar Valsson, skipherra á Tý. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Undir vettvangsstjórninni komið

Að sögn Einars þurfa skipverjar að fara í veirupróf eins og aðrir sem koma að úr öðrum landshlutum. Fyrir vikið er helsta hlutverk Gæslunnar á þessari stundu að fylgjast með því hvort einhver hreyfing sé í fjallinu upp á frekari skriðuföll á meðan menn eru að störfum undir fjallinu. Um síðastliðna nótt voru kastarar varðskipsins nýttir til að lýsa upp í hlíðarnar fyrir ofan Seyðisfjörð. 

„Það er algjörlega undir vettvangsstjórninni komið hver okkar verkefni verða og við getum brugðist við ansi mörgum verkefnum ef svo ber undir,“ segir Einar. Þá segir hann það einnig óljóst hve lengi skipverjar verða á svæðinu. 

„Við fylgjumst með hlíðinni þar sem verið er að vinna og gerum þeim sem eru á svæðinu viðvart ef við verðum varir við hreyfingar í hlíðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert