„Hver myndi ráða homma?“

Einar Þór Jónsson, þroskaþjálfi og framkvæmdastjóri HIV Ísland.
Einar Þór Jónsson, þroskaþjálfi og framkvæmdastjóri HIV Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Maður var mjög berskjaldaður eftir að hafa komið út úr skápnum og það þurfti sterk bein til að standa með sjálfum sér. Þetta var heilmikið álag og útilokað fyrir mig að vera í Bolungarvík. Það var varla hægt að vera hommi í Reykjavík heldur. Ekkert mátti og allir voru í felum, bæði hommar og lesbíur. Samtökin ’78 reyndu af veikum mætti að búa til einhvern vettvang en lítið gekk. Sýnilegir hommar voru einsleitur hópur; kynlegir kvistir eins og Gulli rakari sem sagðir voru meinlausir. Stereótýpur.“

Þetta segir Einar Þór Jónsson, þroskaþjálfi og framkvæmdastjóri HIV Ísland, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins en hann kom út úr skápnum um miðjan níunda áratuginn. Ævisaga Einars Þórs, Berskjaldaður, kom út á dögunum hjá Bjarti. Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir skráði. 

Barinn fyrir að vera hommi

Á ýmsu gekk og í bókinni lýsir Einar Þór grófu ofbeldi frá hendi bláókunnugra manna sem fannst ekkert að því að vinda sér upp að honum á götu og berja hann til óbóta vegna þess að hann væri hommi. „Mín kynslóð hefur öll þá sögu að segja.“

Allt svona áreiti, eins erfitt og það var, gerði Einar Þór bara ákveðnari og sannfærðari um að hann hefði gert rétt. Það var heldur enginn valkostur. „Ég efast um að ég hefði lifað hitt af,“ segir hann og á þar við líf í skápnum. „Ég kom til þess að gera ungur út úr skápnum, alla vega með hliðsjón af minni kynslóð, en menn eru að koma út á öllum aldri. Það er aldrei of seint að fara að lifa og blómstra sem samkynhneigður maður. Því miður eru samt enn þá karlar inni í skápnum sem sumir hverjir munu aldrei koma út og öðlast frelsi. Það er sorglegt.“

Sjálfur hafði Einar Þór verið með konum áður en hann kom út úr skápnum og meira að segja eignast dóttur, Kolbrúnu Ýr, árið 1984 með Kristjönu Hreinsdóttur. Sá það fjölskyldumynstur þó aldrei fyrir sér. „Ég man ekki nákvæmlega hvenær þessar tilfinningar og hugsanir byrjuðu að læðast að mér – að ég hneigðist til karlmanna. Meðan ég var að vaxa úr grasi þekkti ég enga homma og upplýsingar voru af skornum skammti, ekkert net og engin fræðsla. Samt kom þetta alls ekki yfir mig eins og þruma.“

Gaman að ögra

Einar Þór sá enga framtíð á Íslandi; erfitt yrði að byggja upp líf og vera á vinnumarkaði. „Hver myndi ráða homma til starfa?“ Hann hélt því sem leið lá til heimsborgarinnar Lundúna, þar sem andrúmsloftið var allt annað. „Þar opnuðust stórar dyr; maður mátti vera samkynhneigður,“ segir Einar Þór en bráðskemmtilega lýsingu er að finna í bókinni á því þegar karlmaður kyssti hann í fyrsta skipti opinberlega. Á bar. Á því augnabliki sló vestfirska hjartað ört.

– Líturðu á þig sem brautryðjanda?

„Já, það geri ég. Með stolti. Ég tilheyri hópnum sem tók af skarið hér heima og varð sýnilegur. Til öryggis fórum við til að byrja með gjarnan í hópum út að skemmta okkur. Sumir meira ögrandi en aðrir. Eins og gengur. Það er ekki sama hvernig þetta er gert og við urðum að vera smart klæddir – og sætir. Ekki til að ná í gæja heldur til að verða samþykktir.“

– Fannst þér gaman að ögra?

„Hvað heldur þú?“ segir hann og hlær dátt. „Við vorum ekki bara að sligast af mótlæti, allir væru svo vondir, heldur líka uppfullir af eldmóði og réttlætiskennd.“

Smám saman fóru fjölmiðlar að sýna baráttunni meiri skilning og áhuga; fóru að segja frá og birta viðtöl. „Það skipti miklu máli og átti þátt í að breyta viðhorfinu. Það kemur ekkert í staðinn fyrir upplýsta umræðu, þar sem öll sjónarmið koma fram.“

Eðli málsins samkvæmt á ungt fólk í dag erfitt með að skilja hvað átti sér stað á þessum tíma. „Maður þarf að hafa verið þarna til að skilja það til fulls. Viðhorfið til samkynhneigðar hefur gjörbreyst. Ég tala mikið við yngra fólk, frá tuttugu til fjörutíu ára, sem gæti verið börnin mín, um þessi mál og finn að þau langar að skilja þetta en ég veit samt ekki hvort þau geta það. Ekki að fullu. Ætli þetta sé ekki álíka framandi og þegar afi og amma lýstu fyrir okkur hvernig þau ólust upp, tíu eða jafnvel tuttugu saman, í tveimur herbergjum. Í dag þykja það sjálfsögð mannréttindi að fólk geti skilgreint sig eins og það vill, hinsegin, trans, kynsegin og hvað þetta allt heitir, og hreyfi einhver mótmælum brýst út reiði. Þannig aðstæður bjuggum við ekki við á níunda áratugnum. Ég meina, ég var með allra fyrstu opinberlega samkynhneigðu mönnunum sem fengu vinnu á Íslandi. Ýmsir kusu að fara hina leiðina, koma sér vel fyrir á vinnumarkaði áður en þeir komu út úr skápnum.“

Einar Þór missti marga góða vini og félaga úr alnæmi.
Einar Þór missti marga góða vini og félaga úr alnæmi. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Barátta upp á líf og dauða

Einar Þór segir þessa sögu ekki mega gleymast. „Þessi barátta var upp á líf og dauða. Dramatískt en dagsatt. Það brotnuðu margir og urðu áfengi og eiturlyfjum að bráð. Nú eða féllu fyrir eigin hendi. Aðrir spjöruðu sig. Oft var hárfín lína þarna á milli.“

Talandi um líf og dauða þá var kveðinn upp „dauðadómur“ yfir Einari Þór sjálfum eitt föstudagssíðdegi árið 1987. Hann var þá vestur í Bolungarvík að leysa af í verslun föður síns þegar síminn hringdi. Það var Kristján Erlendsson smitsjúkdómalæknir. „Um fátt var meira rætt en HIV og alnæmi á þessum tíma og þótt ég þekkti engan smitaðan, sem ég vissi af, þá ákvað ég að fara í próf. Það tók um tvær vikur að fá niðurstöðu og ég var ekkert að velta þessu fyrir mér þegar Kristján hringdi. Hann sagði mér ekki beint út að ég væri HIV-jákvæður, heldur að hann vildi fá mig strax suður í annað próf og að ég mætti alls ekki stunda kynlíf í millitíðinni. Ekki var hægt að misskilja hvað það þýddi. Ég vissi að ég væri með HIV. Eftir að hafa fengið þennan dauðadóm gekk ég eins og í leiðslu fram í búðina, sem var full af fólki, og sagði hátt og snjallt: Næsti!“

Einar Þór trúir að hann hafi smitast af Nasser, írönskum kærasta, sem hann átti um tíma í Lundúnum. Seinna kom í ljós að hann hafði verið smitaður án þess að segja frá því. Nasser lést síðar úr alnæmi.

Ítarlegt viðtal við Einar Þór er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert