„Hver myndi ráða homma?“

Einar Þór Jónsson, þroskaþjálfi og framkvæmdastjóri HIV Ísland.
Einar Þór Jónsson, þroskaþjálfi og framkvæmdastjóri HIV Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Maður var mjög ber­skjaldaður eft­ir að hafa komið út úr skápn­um og það þurfti sterk bein til að standa með sjálf­um sér. Þetta var heil­mikið álag og úti­lokað fyr­ir mig að vera í Bol­ung­ar­vík. Það var varla hægt að vera hommi í Reykja­vík held­ur. Ekk­ert mátti og all­ir voru í fel­um, bæði homm­ar og lesb­í­ur. Sam­tök­in ’78 reyndu af veik­um mætti að búa til ein­hvern vett­vang en lítið gekk. Sýni­leg­ir homm­ar voru eins­leit­ur hóp­ur; kyn­leg­ir kvist­ir eins og Gulli rak­ari sem sagðir voru mein­laus­ir. St­ereótýp­ur.“

Þetta seg­ir Ein­ar Þór Jóns­son, þroskaþjálfi og fram­kvæmda­stjóri HIV Ísland, í sam­tali við Sunnu­dags­blað Morg­un­blaðsins en hann kom út úr skápn­um um miðjan ní­unda ára­tug­inn. Ævi­saga Ein­ars Þórs, Ber­skjaldaður, kom út á dög­un­um hjá Bjarti. Gunn­hild­ur Arna Gunn­ars­dótt­ir skráði. 

Bar­inn fyr­ir að vera hommi

Á ýmsu gekk og í bók­inni lýs­ir Ein­ar Þór grófu of­beldi frá hendi bláókunn­ugra manna sem fannst ekk­ert að því að vinda sér upp að hon­um á götu og berja hann til óbóta vegna þess að hann væri hommi. „Mín kyn­slóð hef­ur öll þá sögu að segja.“

Allt svona áreiti, eins erfitt og það var, gerði Ein­ar Þór bara ákveðnari og sann­færðari um að hann hefði gert rétt. Það var held­ur eng­inn val­kost­ur. „Ég ef­ast um að ég hefði lifað hitt af,“ seg­ir hann og á þar við líf í skápn­um. „Ég kom til þess að gera ung­ur út úr skápn­um, alla vega með hliðsjón af minni kyn­slóð, en menn eru að koma út á öll­um aldri. Það er aldrei of seint að fara að lifa og blómstra sem sam­kyn­hneigður maður. Því miður eru samt enn þá karl­ar inni í skápn­um sem sum­ir hverj­ir munu aldrei koma út og öðlast frelsi. Það er sorg­legt.“

Sjálf­ur hafði Ein­ar Þór verið með kon­um áður en hann kom út úr skápn­um og meira að segja eign­ast dótt­ur, Kol­brúnu Ýr, árið 1984 með Kristjönu Hreins­dótt­ur. Sá það fjöl­skyldu­mynst­ur þó aldrei fyr­ir sér. „Ég man ekki ná­kvæm­lega hvenær þess­ar til­finn­ing­ar og hugs­an­ir byrjuðu að læðast að mér – að ég hneigðist til karl­manna. Meðan ég var að vaxa úr grasi þekkti ég enga homma og upp­lýs­ing­ar voru af skorn­um skammti, ekk­ert net og eng­in fræðsla. Samt kom þetta alls ekki yfir mig eins og þruma.“

Gam­an að ögra

Ein­ar Þór sá enga framtíð á Íslandi; erfitt yrði að byggja upp líf og vera á vinnu­markaði. „Hver myndi ráða homma til starfa?“ Hann hélt því sem leið lá til heims­borg­ar­inn­ar Lund­úna, þar sem and­rúms­loftið var allt annað. „Þar opnuðust stór­ar dyr; maður mátti vera sam­kyn­hneigður,“ seg­ir Ein­ar Þór en bráðskemmti­lega lýs­ingu er að finna í bók­inni á því þegar karl­maður kyssti hann í fyrsta skipti op­in­ber­lega. Á bar. Á því augna­bliki sló vest­firska hjartað ört.

– Lít­urðu á þig sem brautryðjanda?

„Já, það geri ég. Með stolti. Ég til­heyri hópn­um sem tók af skarið hér heima og varð sýni­leg­ur. Til ör­ygg­is fór­um við til að byrja með gjarn­an í hóp­um út að skemmta okk­ur. Sum­ir meira ögr­andi en aðrir. Eins og geng­ur. Það er ekki sama hvernig þetta er gert og við urðum að vera smart klædd­ir – og sæt­ir. Ekki til að ná í gæja held­ur til að verða samþykkt­ir.“

– Fannst þér gam­an að ögra?

„Hvað held­ur þú?“ seg­ir hann og hlær dátt. „Við vor­um ekki bara að slig­ast af mót­læti, all­ir væru svo vond­ir, held­ur líka upp­full­ir af eld­móði og rétt­lætis­kennd.“

Smám sam­an fóru fjöl­miðlar að sýna bar­átt­unni meiri skiln­ing og áhuga; fóru að segja frá og birta viðtöl. „Það skipti miklu máli og átti þátt í að breyta viðhorf­inu. Það kem­ur ekk­ert í staðinn fyr­ir upp­lýsta umræðu, þar sem öll sjón­ar­mið koma fram.“

Eðli máls­ins sam­kvæmt á ungt fólk í dag erfitt með að skilja hvað átti sér stað á þess­um tíma. „Maður þarf að hafa verið þarna til að skilja það til fulls. Viðhorfið til sam­kyn­hneigðar hef­ur gjör­breyst. Ég tala mikið við yngra fólk, frá tutt­ugu til fjöru­tíu ára, sem gæti verið börn­in mín, um þessi mál og finn að þau lang­ar að skilja þetta en ég veit samt ekki hvort þau geta það. Ekki að fullu. Ætli þetta sé ekki álíka fram­andi og þegar afi og amma lýstu fyr­ir okk­ur hvernig þau ólust upp, tíu eða jafn­vel tutt­ugu sam­an, í tveim­ur her­bergj­um. Í dag þykja það sjálf­sögð mann­rétt­indi að fólk geti skil­greint sig eins og það vill, hinseg­in, trans, kynseg­in og hvað þetta allt heit­ir, og hreyfi ein­hver mót­mæl­um brýst út reiði. Þannig aðstæður bjugg­um við ekki við á ní­unda ára­tugn­um. Ég meina, ég var með allra fyrstu op­in­ber­lega sam­kyn­hneigðu mönn­un­um sem fengu vinnu á Íslandi. Ýmsir kusu að fara hina leiðina, koma sér vel fyr­ir á vinnu­markaði áður en þeir komu út úr skápn­um.“

Einar Þór missti marga góða vini og félaga úr alnæmi.
Ein­ar Þór missti marga góða vini og fé­laga úr al­næmi. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son


Bar­átta upp á líf og dauða

Ein­ar Þór seg­ir þessa sögu ekki mega gleym­ast. „Þessi bar­átta var upp á líf og dauða. Drama­tískt en dagsatt. Það brotnuðu marg­ir og urðu áfengi og eit­ur­lyfj­um að bráð. Nú eða féllu fyr­ir eig­in hendi. Aðrir spjöruðu sig. Oft var hár­fín lína þarna á milli.“

Talandi um líf og dauða þá var kveðinn upp „dauðadóm­ur“ yfir Ein­ari Þór sjálf­um eitt föstu­dags­síðdegi árið 1987. Hann var þá vest­ur í Bol­ung­ar­vík að leysa af í versl­un föður síns þegar sím­inn hringdi. Það var Kristján Er­lends­son smit­sjúk­dóma­lækn­ir. „Um fátt var meira rætt en HIV og al­næmi á þess­um tíma og þótt ég þekkti eng­an smitaðan, sem ég vissi af, þá ákvað ég að fara í próf. Það tók um tvær vik­ur að fá niður­stöðu og ég var ekk­ert að velta þessu fyr­ir mér þegar Kristján hringdi. Hann sagði mér ekki beint út að ég væri HIV-já­kvæður, held­ur að hann vildi fá mig strax suður í annað próf og að ég mætti alls ekki stunda kyn­líf í millitíðinni. Ekki var hægt að mis­skilja hvað það þýddi. Ég vissi að ég væri með HIV. Eft­ir að hafa fengið þenn­an dauðadóm gekk ég eins og í leiðslu fram í búðina, sem var full af fólki, og sagði hátt og snjallt: Næsti!“

Ein­ar Þór trú­ir að hann hafi smit­ast af Nass­er, ír­önsk­um kær­asta, sem hann átti um tíma í Lund­ún­um. Seinna kom í ljós að hann hafði verið smitaður án þess að segja frá því. Nass­er lést síðar úr al­næmi.

Ítar­legt viðtal við Ein­ar Þór er að finna í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert