Ísland sagt langt á eftir í bóluefnamálum

Íslendingar hafa tryggt kaup á mun færri skömmtum af bóluefni …
Íslendingar hafa tryggt kaup á mun færri skömmtum af bóluefni miðað við höfðatölu en önnur Evrópuríki, samkvæmt úttekt Bloomberg. AFP

Ísland er mikill eftirbátur annarra Evrópulanda þegar kemur að því að tryggja bóluefni fyrir íbúa sína, ef marka má samantekt Bloomberg. Samkvæmt Bloomberg hefur Ísland aðeins tryggt 103 þúsund skammta af bóluefni eða sem nemur 29% af íbúafjölda. Jafnan þarf tvo skammta á mann af bóluefni.

Uppfært: stjórnarráðið hefur sent leiðréttingu á Bloomberg vegna fréttarinnar.

Í frétt Bloomberg eru Evrópusambandslöndin, auk Noregs, sögð hafa tryggt skammta sem nema 172% af íbúafjölda og Bretland hefur tryggt nærri þrefalt fleiri skammta en íbúafjölda. Þá hefur Sviss  tryggt skammta sem nema 97% af íbúafjölda. 

Bandaríkin hafa tryggt skammta sem nema 154% af íbúafjölda og Ástralía 230%. Kanadamenn eru langfremstir þegar kemur að því að tryggja bóluefni samkvæmt Bloomberg og hafa tryggt meira en fimmfalt fleiri skammta en sem nemur íbuafjölda.

Lönd sem eru græn á korti Bloomberg hafa tryggt jafnmarga …
Lönd sem eru græn á korti Bloomberg hafa tryggt jafnmarga skammta af bóluefni og nemur íbúafjölda. Kort/Bloomberg

Í samantekt miðilsins er greint frá því hvernig hann fylgist náið með þróun, framleiðslu og dreifingu bóluefnis gegn COVID-19 hjá níu vænlegustu bóluefnaframleiðendum heims. Þar segir að þegar hafi 8,2 milljarðar skammta verið teknir frá, en tekið skal fram í flestum tilvikum þarf tvo skammta til að bóluefnið nái fullri virkni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í Kastljósi í vikunni að fyrir lægi að búið væri að tryggja aðgang að bóluefni fyrir 60 til 70% Íslendinga. Til þess þyrfti að öllum líkindum fjölda skammta sem nemur að minnsta kosti íbúafjölda Íslands.

Tekið skal fram að samningar um bóluefni eru aðeins hafðir með í talningu Bloomberg ef upplýsingar um framleiðanda, fjölda skammta og hvaða lönd fá bóluefnið liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka