„Ósk okkar væri að geta endurbyggt“

Elstu hús sem skemmdust voru byggð um 1880.
Elstu hús sem skemmdust voru byggð um 1880. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dr. Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Minjastofnunar segir sorglegt að sjá það menningarlega tjón, sem orðið hefur af aurskriðunum á Seyðisfirði.

„Þetta er elsta byggð á Seyðisfirði sem er nú í rúst. Sögulega er þetta mjög mikilvægt svæði. Þarna eru hús frá 19. öld til upphafs 20. aldar sem fólk hefur eytt kröftum og fjármagni í að laga á undanförnum árum,“ segir Kristín í samtali við mbl.is.

„Þetta er mikið tilfinningalegt tjón fyrir marga, og okkur finnst þetta voðalegt sem störfum við minjavernd.“

Meta stöðuna eftir jól

Hún segir þó erfitt að meta menningartjónið þar sem starfsfólk Minjastofnunar er ekki á vettvangi, en stofnunin mun ekki senda fólk austur fyrr en eftir jól.

„Við ætluðum að fara fyrr, en það eru engar forsendur til að fara strax, við eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast allt saman,“ segir Kristín.

Minjastofnun muni aðstoða íbúa

Íbúar Seyðisfjarðar hafa margir fengið styrki úr húsafriðunarsjóði til uppbyggingar og lagfærslu á gömlum húsum á svæðinu. Aðspurð segir Kristín sjóðinn þó ekki geta staðið undir endurbyggingu á öllum þeim fornu húseignum sem skemmdust.

„Húsafriðunarsjóður er ekki það stór. Hann gæti þó mögulega verið efldur á einhvern hátt og fjármagninu komið beint til Seyðisfjarðar, en maður veit ekki,“ segir hún.

Minjastofnun sé þó viljug að aðstoða þá, sem hyggjast endurreisa húsin, eftir fremsta megni.

„Vilji okkar hjá Minjastofnun er að hjálpa til og ég veit að það er líka vilji [mennta- og menningarmála]ráðuneytisins, ég efast ekki um það.“

„Ósk okkar væri að geta endurbyggt þetta alveg eins og það var.“

Fara skal gætilega í framhaldinu

Kristín segir allar hreinsunaraðgerðir í kjölfar hamfaranna verða að vera framkvæmdar varfærnislega.

„Auðvitað þarf að hreinsa, en það þarf að gera það varlega varðandi húsin. Svo eru þetta ekki bara hús, heldur líka safngripir sem eru í Tækniminjasafninu t.d., en hluti þess er alveg farinn,“ segir hún.

„Við vitum ekkert hvað bíður, en maður verður að stíga varlega til jarðar og vega og meta hvað er hægt að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert