Óvíst hvort hægt verði að byggja aftur á lóðunum

Eignatjónið er gríðarlegt á Seyðisfirði.
Eignatjónið er gríðarlegt á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þó húseignir og brunatryggt innbú sem orðið hefur fyrir tjóni í aurskriðunum á Seyðisfirði á síðustu dögum sé skylduvátryggt hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, eru lóðirnar ekki vátryggðar með sama hætti. 

Pétur Ármannsson, arkitekt hjá Minjastofnun, tjáði Ríkisútvarpinu í gær að það sé alls kostar óvíst hvort hægt verði að byggja aftur á því landi sem varð fyrir skriðunum, en nokkur sögufræg hús eru illa skemmd, og líklega innbú þeirra einnig.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, segir stofnunina nú vera að skoða það hvernig tjón á landareignum verði bætt.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands. mbl.is/Hari

 „Landið er ekki tryggt hjá okkur. Ef ekki er hægt að endurbyggja á viðkomandi svæði vegna hættu er það verkefni sem er í höndum þeirra sem fara með skipulagsvaldið, hvort leyft verður að byggja aftur upp á svæðinu eða hvort byggt verður upp annars staðar. Ef ekki er unnt að endurreisa á sama stað eru heimildir fyrir því að greiða tjónabætur út,“ segir Hulda Ragnheiður í samtali við mbl.is.

„Það er verkefnið fram undan að vinna að úrlausn á þessu.“

Mikið menningartjón

Tækniminjasafn Austurlands, sem staðsett er á Seyðisfirði, varð mjög illa úti í hamförunum. Safnkostur þess er nú grafinn undir þungu hlassi af aur og drullu.

Hulda Ragnheiður segir þó óvíst að hlutir af því tagi séu tryggðir hjá stofnuninni.

„Það sem hefur sögulegt eða menningarlegt gildi er almennt ekki tryggt hjá okkur, ef slíkar tryggingar eru fyrir hendi þá eru þær í gegnum almennu vátryggingafélögin,“ segir hún.

Stofnunin hafi þó ekki fengið formlega tilkynningu um eignir safnsins enn, og mun því væntanlega skýrast á næstu dögum hvernig gengið hafi verið frá tryggingum safnsins, svo sem hvort aukatryggingar hafi verið á safnkostinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert