Skákæði hefur gripið um sig hér á landi, sem og víðar, og Skáksamband Íslands hefur ekki farið varhluta af símtölum frá skákþyrstum landsmönnum sem vilja gjarnan tryggja sér skákklukku, annaðhvort til eigin nota eða í jólapakkann. Klukkurnar eru uppseldar hjá einum helsta söluaðila þeirra, Spilavinum.
„Það hefur mikið verið hringt í Skáksambandið undanfarið og spurt um skákvörur. Í gær fengum við þær fréttir að þær væru ekki til hjá Spilavinum sem hafa staðið sig afar vel í sölu skákvara,“ segir Gunnar.
Netflix-þættirnir Drottningarbragð (e. Queen's Gambit), sem fjalla um skákundrabarnið Beth Harmon, slógu í gegn og hafa miðlar erlendis m.a. fjallað um áhrif hennar á skákhreyfinguna á heimsvísu. Gunnar tekur undir þessar hugleiðingar: „Það hefur verið mikil uppsveifla undanfarið sem hefur ekki farið framhjá okkur í hreyfingunni. Við rekjum hana að miklu leyti til Queens' Gambit.“
Íslenska skákhreyfingin hefur tekið áhuganum fagnandi og hefur t.a.m. Ingvar Þór Jóhannesson, fyrrverandi landsliðsþjálfari sem heldur úti youtubesíðu með skákefni, tekið eftir því að áhorfshlutfall kvenna rauk úr 1,3%, fyrir árið 2019, í 19% í nóvembermánuði þessa árs.
Spurður hvort aukni skákáhuginn sé ekki gleðiefni segir Gunnar:
„Að sjálfsögðu. Í þessu felast tækifæri – enda er skák góð fyrir alla. Eftir áramót mun skákhreyfingin bjóða upp á aukið framboð á námskeiðum fyrir skákmenn á öllum aldri og að sjálfsögðu að báðum kynjum! Og ef ekki verður mögulegt í raunheimi, þá í netheimi,“ segir Gunnar glaður í bragði.