Tækniminjasafnið gjörónýtt

Aðalbygging Tækniminjasafns Austurlands er gjörónýt.
Aðalbygging Tækniminjasafns Austurlands er gjörónýt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalbygging Tækniminjasafns Austurlands og Skipasmíðastöðin, sem einnig tilheyrir safninu, eru gjörónýtar. Þetta segir í tilkynningu frá Zuhaitz Akizu, forstöðumanni Tækniminjasafnsins.

„Á þessum erfiðu tímum hafa Þjóðminjasafnið og Blái skjöldurinn á Íslandi boðið fram hjálp sína og sérfræðinga,“ ritar Zuhaitz. Gripið verði til frekari aðgerða á næstu dögum og vikum þegar ákveðið verði hvernig minjum safnsins verði best bjargað, en hingað til hafi forstöðumenn safnsins einungis haft á upplýsingum frá viðbragðsaðilum á svæðinu að byggja.

Auk aðalbyggingarinnar og Skipasmíðastöðvarinnar, sem eru eins og áður segir gjörónýtar, varð Vélsmiðja Jóhanns Hanssonar einnig fyrir áhrifum frá skriðunni þó hún hafi ekki orðið fyrir henni, en byggingin er nú umkringd af átta metra háum sköflum af rústum og jarðvegi. Útlitið fyrir bygginguna er ekki gott, að sögn Zuhaitz.

Enn hefur öðrum en viðbragðsaðilum og sérfræðingum ekki verið hleypt inn á svæðið, en að sögn Zuhaitz mun taka vikur eða mánuði að fullmeta tjónið sem orðið hefur á Tækniminjasafninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert