„Aldrei að gefast upp“

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir setti fimm ný Íslandsmet í ólympískum lyftingum …
Úlfhildur Arna Unnarsdóttir setti fimm ný Íslandsmet í ólympískum lyftingum á NM um helgina og blés varla úr nös, lenti í öðru sæti í sínum flokki. Hún á rétt aðeins meira en mamma í bekk og hlógu þær mæðgur dátt þegar þetta barst í tal. Ljósmynd/Árni Rúnar Baldursson

„Ha ha, já svona sirka,“ segir Helga Hlín Hákonardóttir, tæplega fimmtugur íslenskur lögmaður í Svíþjóð og nýbakaður Evrópumeistari í sínum flokki í ólympískum lyftingum, innt eftir því hvort dóttir hennar, hin 15 ára gamla Úlfhildur Arna Unnarsdóttir, sé virkilega heilum metra hærri en hún.

„Eru það ekki flestir?“ segir Helga Hlín, þessi lágvaxni Norðlendingur sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og æfir ólympískar af krafti með dótturinni í Svíþjóð. Þessar valkyrjur og mæðgur ræddu við mbl.is í dag eftir að ljóst varð að þær hefðu aldeilis raðað inn titlum, Helga Hlín Evrópumeistari í -59 kg flokki og dóttirin í öðru sæti í -71 kg flokki unglinga undir 17 ára eftir að hafa sett fimm ný Íslandsmet á einu og sama mótinu.

„Maðurinn minn [Unnar Sveinn Helgason] er í námi hérna í osteópatíu [meðferðarformi þar sem áhersla er lögð á heilsu alls líkamans til að meðhöndla stoðkerfisvandamál] en hann starfar einnig sem styrktar- og þrekþjálfari og er m.a. búinn að vera að þjálfa Gunnar Nelson [bardagaíþróttamann] og Aron Gunnar [Einarsson knattspyrnumann]“ segir Helga Hlín frá en mæðgurnar hafa búið í Svíþjóð síðan í maí.

Varð illt í hnjánum

„Við ákváðum að koma hingað og vera í eitt og hálft eða tvö ár og sjá hvernig okkur líkar,“ segir Helga Hlín. „Ég ætlaði bara að láta á það reyna við kúnnana mína hvernig gengi að starfa héðan sem lögmaður,“ bætir hún við með hörðum norðlenskum framburði. „Svo kom Covid ofan í þetta og ég var búin að vinna heima og ekki hitta nokkurn mann í tvo og hálfan mánuð svo ég fann nú ekki mikið fyrir því að flytja til Gautaborgar,“ segir Norðlendingurinn borubrattur.

Stolt mamma og lyftingakona smellir kossi á stelpuna sína. Helga …
Stolt mamma og lyftingakona smellir kossi á stelpuna sína. Helga Hlín er Evrópumeistari í sínum þyngdarflokki og Úlfhildur, 15 ára gömul, setti fimm Íslandsmet á NM um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Úlfhildur dóttir Helgu Hlínar er 15 ára, fyrrverandi fimleikastúlka og nú margfaldur Íslandsmethafi í ólympískum lyftingum. Hvernig kom það til að hún fór að rífa í stálið?

„Ég byrjaði að fá illt í hnén í fimleikunum og gat ekki æft almennilega sem kannski minnkaði áhugann smám saman,“ segir Úlfhildur frá. „Pabbi og mamma voru búin að æfa crossfit síðan 2009 og ég byrjaði að æfa það með þeim 2017 og það var kannski mest þeim að þakka að ég fór í þetta. Í fimleikunum voru býsna mikil hopp sem fóru illa í hnén á mér og svo lagaðist það þegar ég hætti.“

Helga Hlín segir Evrópumótið hafa farið býsna sérstaklega fram. „Mitt mót var haldið þannig að hver og einn sendi inn myndbönd af sínum lyftum og við þurftum að sýna fram á sérstaka tímastimpla upp á tímasetningu á vigtun og svo lyftunum sjálfum og að allt væri reglum samkvæmt,“ segir Helga Hlín. „Svo þurftum við að fá allt uppáskrifað frá dómurum, til dæmis að allar lyftur væru réttar og gildar,“ bætir hún við.

Búin að bæta sig svakalega

Þær mæðgur æfa saman í Svíþjóð og gefa ekkert eftir. Hvernig finnst Úlfhildi að æfa með móður sinni sem er er 33 árum eldri en hún? „Það er frábært, ég fæ rosalegan stuðning frá henni,“ segir Úlfhildur og móðir hennar grípur strax fram í á þessu spjalli sem fór fram á Messenger og segir stuðninginn gagnkvæman.

„Mér finnst líka ógeðslega gaman að æfa með þér,“ svarar mamma og hlær. „Það var svo sjúklega gaman þegar við vorum að byrja, ég get nú ekki alveg útskýrt það, en svo gerðist það bara á ljóshraða, tæknin kom hjá henni og þegar hún náði styrknum tók hún strax fram úr mér,“ segir Helga Hlín og þær mæðgur skellihlæja.

Mæðgurnar Helga Hlín og Úlfhildur í motocross-ferð í Bjarnastaðaskógi í …
Mæðgurnar Helga Hlín og Úlfhildur í motocross-ferð í Bjarnastaðaskógi í Fnjóskadal árið 2010. Ljósmynd/Aðsend

„Hún er búin að bæta sig svakalega síðan við komum hingað út [til Svíþjóðar] og ég þarf nú bara að hafa mig alla við til að halda í við hana,“ játar móðirin norðlenska.

Unnar maður hennar þjálfar þær mæðgur, þaulvanur crossfit-maður og harður nagli sem Helga Hlín og Úlfhildur bera vel söguna.

En hvernig var upplifunin á mótunum? Byrjum á Úlfhildi.

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt, ég fékk að vera með öllu fólkinu sem ég var að keppa með á Íslandi og þjálfurum og þetta var bara mjög mikil upplifun,“ segir nýbakaður fimmfaldur Íslandsmethafi, fimmtán ára gömul stúlka sem hafnaði í öðru sæti í sínum flokki um helgina.

Munurinn mikill

„Það er mikill munur á að keppa í undir 15 ára og undir 17 ára flokki og ég var ekkert búin að skoða metin í U15. Svo kom Maríanna [Ástmarsdóttir, framkvæmdastjóri Lyftingasambands Íslands] og sagði mér bara að ég væri búin að slá öll þessi met og ég átti ekki orð,“ segir Úlfhildur sem býr við agaðan sólarhring. „Ég vakna hálfsjö og fæ mér morgunmat og fer oftast með pabba og mömmu á æfingu, þau skutla mér. Auk þess borða ég hollan mat og fæ mér auk þess Unbroken sem er hydrolized laxaprótein,“ segir Úlfhildur frá og blaðamaður, sem telur sig ýmsar fjörur hafa sopið eftir 32 ára lóðarí, veit ekkert hvað hún er að tala um.

Þar er þó um að ræða vatnsrofið prótein sem hannað var til að glíma við næringarvandamál geimfara. Vesalings laxinn.

Helga Hlín, hrikaleg og ein, á upptöku fyrir Evrópumótið í …
Helga Hlín, hrikaleg og ein, á upptöku fyrir Evrópumótið í skugga Covid-19. Ljósmynd/Aðsend

„Við æfum í svona tvo tíma,“ segir Úlfhildur. Kórónuveirufaraldurinn hafi þó sett örlítið strik í reikninginn. „Ég fékk Covid sjálf fyrir nokkrum vikum þegar kom upp hópsmit í bekknum og þurfti að mæta í skólann bara on-line, í símanum, allur skólinn var í raun lagður niður. Ég kom rosalega vel út úr þessu, engin eftirköst eða neitt,“ segir hún enn fremur.

Hvað með Evrópumeistaramótið hjá mömmu, hvernig stendur á þessu. „Við Unnar vorum að æfa crossfit saman á fullu. Svo fékk ég brjósklos og þurfti að taka hlé frá öllu í nokkur ár frá 2013. Var frá vinnu meira og minna í eitt ár, tvær aðgerðir og allt í rugli,“ rifjar Helga Hlín upp.

Skiptir máli að hvetja aðra

Hún segir það í raun hafa tekið fjögur ár að komast aftur á byrjunarreit. „En síðan þá hef ég í raun verið að bæta mig í öllu. Ég setti 18 Íslandsmet á jólamóti Lyftingasambandsins í fyrra og á níu Íslandsmet núna. Þetta breytist með aldrinum, þegar maður er orðinn master er veikbyggðara fólkið fyrir ofan þig í aldri en þeir yngri eru sterkari, þannig að metin sem ég var að setja töldu sum líka í flokki 40 til 45 ára þótt ég væri að keppa í 45 til 50 ára flokkum,“ segir Norðlendingurinn.

„Ef ég á að vera alveg einlæg þá skiptir það mig mjög miklu máli að hvetja aðra með minni sögu. Ég var á svo vondum stað að ég trúi því varla að ég hafi komist þaðan til baka. Ég vona bara að það hvetji einhvern eða jafnvel einhverja,“ segir Helga Hlín vongóð. „Aðalatriðið er bara aldrei að gefast upp.“

„Umgjörðin er breytt núna, Evrópumótið átti að vera í Hollandi í maí og svo var það bara haldið on-line og þetta er allt öðruvísi, það vantar alla áhorfendur og pepp og allt svoleiðis, stemmninguna að labba á pallinn og allt það. En þetta endaði allt vel, ég gerði reyndar tvær lyftur ógildar en slíkt getur komið fyrir,“ segir Helga Hlín sem stefnir á heimsmeistaramótið á vordögum 2021.

Helga Hlín á æfingu í CrossFit Västkusten í Svíþjóð. „Ég …
Helga Hlín á æfingu í CrossFit Västkusten í Svíþjóð. „Ég er að klára að jafnhenda þarna, sem er jerk-hlutinn af clean and jerk-lyftunni,“ útskýrir hún eins og hún sé að tala um kaffiuppáhellingu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er náttúrulega drulluerfitt og mikið álag að æfa marga tíma á dag og vera í fullri vinnu og ég er ekkert að yngjast,“ segir norðlenska valkyrjan og hlær dátt. „En þetta er bara svo peppandi, að fá alla þessa endurgjöf og fylgjast með Úlfhildi standa sig svona vel á sínu móti, þetta gefur manni svo mikið. Svo var ég ein að keppa fyrir Íslands hönd í Svíþjóð en hinir íslensku keppendurnir kepptu saman á Íslandi, þannig að þetta var allt saman auðvitað mjög sérstakt.“

Hvor á meira í bekk?

„Mér fannst þetta bara mjög svipað og venjuleg mót,“ segir Úlfhildur, innt eftir því hvernig hún upplifði mót í skugga Covid. „Það var búið að setja teip á gólfið í staðinn fyrir pall og enginn að kynna og maður fann auðvitað fyrir því, en annars var þetta bara eins og venjulegt mót,“ segir Úlfurinn.

Lokaspurningin er óumflýjanleg. Hvor mæðgnanna á meira í bekkpressu? Hláturinn glymur um Messenger. „Ég á 70 kíló,“ segir Úlfhildur, mamma á 66 eða 67, það munar nú ekki miklu svo sem,“ segir hún og mæðgurnar hlæja dátt. Við spyrjum að leikslokum þar sem mömmunni er greinilega ekki fisjað saman og ljúkum hér spjallinu við margfaldan Íslandsmethafa, næstum Norðurlandameistara og tæplega fimmtugan Evrópumeistara í ólympískum lyftingum. Hríð var stáls í stríðri/ströng herdala göngu, eins og Sighvatur hirðskáld Þórðarson orti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka