Húsin sem lentu undir aurflóðunum á Seyðisfirði eru öll, utan eitt, við Hafnargötu. Á því svæði sem einu nafni kallast Búðareyri. „Flóðin gjörbreyta ásýnd þessa hluta bæjarins og tjónið er mikið,“ segir Vilhjálmur Jónsson á Seyðisfirði, bæjarstjóri þar 2011-2018 og nú fulltrúi í sveitarstjórn Múlaþings.
Næst utan við svæðið þar sem skriðan féll er svo þyrping húsa sem kölluð hefur verið Wathnestorfan, kennd við Ottó Wathne, síldarspekúlantinn norska, sem var með umsvifamikinn rekstur á Seyðisfirði undir lok 19. aldar.
„Sé farið langt aftur þurfa hamfarir eins og nú ekki að koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þó er eins og hver eða önnur hver kynslóð fái sinn skammt af svona nokkru og er þá ekki endilega með dæmi frá fyrri tíð á hraðbergi. Þegar horft er á hlíðina þá hafa húsin verið byggð í hana eða undir henni en náttúran hefur tilhneigingu til að viðhalda því formi sem er á fjallinu með skriðum og þær þurfa því ekki að koma á óvart, þótt svona atburðir komi með löngu millibili,“ segir Vilhjálmur.
Varpað hefur verið fram að virða megi tjónið á Seyðisfirði á einn milljarð króna. Vilhjálmur segir þá tölu vel geta staðist, en þó sé ekki allt sem sýnist. Við nánari athuganir komi yfirleitt meira tjón í ljós en virðist í upphafi, til dæmis á ýmsum innviðum. Þá verði sumt ekki metið til fjár og í því sambandi nefnir Vilhjálmur Tækniminjasafn Austurlands, en hús þess og safnkostur urðu eyðileggingu að bráð. Einnig má nefna Silfurhöllina, Hafnargötu 28, sem reist var 1954. Í húsinu, sem eyðilagðist, var fyrr á tíð rekin kaupfélagsverslun en í seinni tíð t.d. verkfræðiþjónusta, hárgreiðslustofa og aðsetur þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytis.
Af öðru sem horfið er á Seyðisfirði eftir skriðurnar er Hafnargata 34; Turninn eins og húsið hefur yfirleitt verið kallað. Það var flutt tilbúið til landsins 1908 og hefur sett svip á bæinn.