Fá að vita stöðuna í dag

Átta af 49 þátttakendum í framboðskönnun Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Átta af 49 þátttakendum í framboðskönnun Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ljósmynd/skjáskot

Frambjóðendur sem gáfu kost á sér í framboðskönnun Samfylkingarinnar í Reykjavík hafa kost á því að hringja í formann fulltrúaráðs og vita hvorum megin miðlínu þau lentu í dag. Þó nokkrir hafa þegar hringt.

Þetta staðfesti Hörður J. Oddfríðarson, formaður fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík, í samtali við mbl.is í dag. 

Framborðskönnunin fór fram rafrænt um helgina og lauk í gær kl. 17. 1.319 manns tóku þátt í könnuninni. Merkja mátti við 5 til 10 frambjóðendur með atkvæði, ekki var raðað með númerum heldur var eitt atkvæði eitt stig.

Raðað í hópa

Hörður segir að 9.563 atkvæði hafi verið greidd, sem samsvarar því að hver hafi greitt 7,2 atkvæði að meðaltali. 

Frambjóðendum verður svo raðað í fimm manna hópa eftir fjölda atkvæða í fyrstu atrennu. Í tilkynningu sem barst frá fulltrúaráði í gær kom fram að áfram verði hlustað eftir hugmyndum og ábendingum frá flokksmönnum. 

Uppstillingarnefnd tekur svo við niðurstöðunum, þó bara hinum fimm manna hópum. Uppstillingarnefnd fær ekki að vita hversu mörg atkvæði eru á bak við hvern einstakling í hópnum. 

Hægt að færa á milli hópa

Hörður segir að ekkert banni að fólk sé fært á milli hópa, en það þurfi að vera rök á bak við það. Ekki mega vera færri konur en 40% á lista og ekki gilda neinar framboðsreglur um fjölda ungliða á lista. Í leiðbeiningum um hvernig skal staðið að uppstillingu stendur að raða skuli á lista fyrir bæði kjördæmi í samræmi við reglur um fléttulista. 

Þá getur uppstillingarnefnd breytt reglunum um hvernig skal staðið að uppstillingu eintóma ef tæknilegar ástæður krefjast þess. 

Uppstillingarnefnd hefur þannig nokkuð víðtækar heimildir til að íhlutast í uppröðun. 17 einstaklingar eru í uppstillingarnefndinni.

Hörður á von á því að eitthvað um niðurstöður könnunarinnar verði gert opinbert eftir fyrsta fund hennar sem fer fram á milli jóla og nýárs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert