Hver er ábyrgð húseigenda?

Þrír létu lífið í brunanum á Bræðraborgarstíg í byrjun júní. …
Þrír létu lífið í brunanum á Bræðraborgarstíg í byrjun júní. Í skýrslu HMS segir að megin­á­stæða þess að eldsvoðinn hafi verið jafn­skæður og raun­in var, hafi verið ástand húss­ins og lé­leg­ar bruna­varn­ir. Breytingar hafi verið gerðar á húsinu sem ekki voru í samræmi við samþykktar teikningar og þær litlu brunavarnir sem hafi verið gert ráð fyrir samkvæmt þeim reyndust ekki til staðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Setja þarf löggjöf um eftirlitsskyldu með íbúðum sem eru í útleigu til þriðja aðila þannig að tryggja megi eldvarnir með sama hætti og gert er á gistiheimilum og íbúðum í skammtímaleigu.

Þetta segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, sem telur það eina helstu niðurstöðu skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um brunann á Bræðraborgarstíg 1, þar sem þrír fórust.

Í skýrslunni, sem kom út fyrir helgi, segir að megin­á­stæða þess að eldsvoðinn hafi verið jafn­skæður og raun­in var, hafi verið ástand húss­ins og lé­leg­ar bruna­varn­ir. Breytingar hafi verið gerðar á húsinu sem ekki voru í samræmi við samþykktar teikningar og þær litlu brunavarnir sem hafi verið gert ráð fyrir samkvæmt þeim reyndust ekki til staðar.

Þetta hefði að öllum líkindum komið fram ef haft væri reglulegt eftirlit með íbúðum í útleigu.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Viðar útskýrir að löggjöfinni sé þannig háttað að ef íbúð eða herbergi er í skammtímaleigu, til dæmis á gistihúsi, hvíli ýmsar skyldur á eigandanum. Eldvarnaeftirlit slökkviliðsins geri þá úttekt á húsnæðinu árlega og eigandinn beri ábyrgð. „Þá er spurningin: Á að vera einhver munur á þessu tvennu?“ spyr Jón Viðar.

Vinna við endurskoðun löggjafarinnar hófst síðla sumars og var sjónum þá einkum beint að skráningu í þjóðskrá og hvort ekki sé rétt að setja hömlur á þann fjölda sem getur haft lögheimili í sama húsi. Greint hefur verið frá því að 73 hafi haft lögheimili í húsinu sem um ræðir þótt mun færri hafi búið þar í raun. Jón Viðar segist ekki hafa nákvæman fjölda íbúa en hann skipti þó ekki tugum. Þeirri vinnu sé nú að mestu lokið.

Nú þegar skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar liggur fyrir og allar staðreyndir eru uppi á borðum, segir Jón Viðar að hægt sé að hefja vinnu við endurskoðun á eftirlitshlutverki og ábyrgð húseigenda. Jón Viðar á sæti í nýskipuðum starfshópi á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem á að skila tillögum um úrbætur. Segist hann binda vonir við að vinnu hópsins ljúki fljótt og örugglega eftir áramót og að þær tillögur verði síðan lagðar til grundvallar að frumvarpi.

Prófmál á Smiðshöfða  

Í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er farið yfir að samkvæmt teikningum að húsinu á Bræðraborgarstíg 1 hafi íbúðir átt að vera á annarri hæð og í risi hússins, en raunin þó verið sú að herbergin voru mun fleiri en samþykkt var og hvert þeirra í þokkabót í útleigu, sem hefði kallað á auknar brunavarnir.

„Eins og lögmaður Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur komið inn á þá var ekki tilkynnt um þessar breytingar sem gerðar voru á húsnæðinu,“ segir Jón Viðar.

„Húsnæðið er hannað sem íbúðarhúsnæði en það er ekki tilkynnt um þessa breytingu. Þarna var komin útleiga fyrir nokkuð marga aðila og hefði kannski átt að horfa á það sem gistiheimili. Um leið og það hefði verið horft á það sem slíkt þá hefði verið komin eftirlitsskylda á húsnæðið frá okkar hálfu. En þar sem það var ekki tilkynnt sem slíkt þá getum við ekki haft eftirlit með því.“

Jón Viðar segir dómsmál gegn eiganda iðnaðarhúsnæðis á Smiðshöfða vera …
Jón Viðar segir dómsmál gegn eiganda iðnaðarhúsnæðis á Smiðshöfða vera prófmál á ábyrgð húseigenda gagnvart brotum á lögum og reglum um brunavarnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrr á árinu kærði Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu eiganda starfsmannaleigunnar 2findjob ehf. til lögreglu fyrir hættubrot og brot gegn lögum um brunavarnir fyrir að hafa látið starfsmenn leigunnar búa í iðnaðarhúsæði að Smiðshöfða 7 án tilskilinna leyfa og fullnægjandi brunavarna. Vísir greindi frá málinu í upphafi mánaðar.

Þegar slökkviliðsstjórinn skoðaði eldvarnir í húsinu í febrúar 2018 kom í ljós að engin brunahólf voru í húsinu til að takmarka útbreiðslu elds og reyks. Þá voru flóttaleiðir ófullnægjandi, inniveggir og gistirými úr auðbrennanlegu efni og ástand raflagna óásættanlegt.

Jón Viðar segir að það mál geti verið prófmál á það hvernig tekið er á brotum á lögum og reglugerðum um brunavarnir.

„Við vitum að ef þú ferð yfir á rauðu ljósi þá færðu sekt ef þú ert tekinn. Sama finnst mér eiga að gilda ef þú brýtur gegn öryggi fólks varðandi brunavarnir þá þarf að finna einhver ákvæði þannig að það sé refsað fyrir að gera það. Brunaöryggi er ekkert öðruvísi vaxið heldur en umferðaröryggi,“ segir Jón Viðar. Málið sé að vissu leyti fyrsta málið þar sem reynir á ábyrgð húseigenda með þessum hætti, þótt málin séu eðlisólík að því leyti að Bræðraborgarstígur var ekki iðnaðarhúsnæði.

„Þetta getur haft áhrif á okkar vinnu í starfshópnum og þetta getur líka haft áhrif á viðhorf þeirra sem eru með þennan rekstur gagnvart þessum öryggisþætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert