„Svo heyri ég búmm“

Edda Andradóttir, Katla Andradóttir og Andrea Ísleifsdóttir.
Edda Andradóttir, Katla Andradóttir og Andrea Ísleifsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er bara gaman. Sérstaklega að leika sér í lyftunni og hlaupa á göngunum.“

Þannig lýsir Edda Andradóttir, átta ára, dvölinni á Hótel héraði á Egilsstöðum en hún þurfti ásamt foreldrum sínum og systur sinni Kötlu, fjögurra ára, að flýja þangað þegar heimabærinn Seyðisfjörður var rýmdur á föstudag. Þær systur una sér vel á hótelinu með frænku sinni, Andreu, sem er sex ára.

Edda og Katla búa í Botnahlíð, sem er ein þeirra gatna sem fyrst var rýmd í bænum.

„Ég var heima hjá Módísi, sem er ein af bestu vinkonum mínum, og við vorum að leika okkur. Svo heyri ég bara búmm búmm. Svo allt í einu kom mamma hennar Módísar og hún spurði Hvar eruði og hún var með áhyggjusvip á andlitinu sínu. Hún faðmaði okkur og svo slokknaði ljósið,“ segir Edda og liggur mikið niðri fyrir þegar hún lýsir fyrir blaðamanni hvar hún var þegar stóra skriðan féll og rafmagnið fór af húsinu.

Vinkonurnar flúðu til ömmu og afa Módísar því þar væri öruggt. „Ég vissi að það var skriða og ég var mjög hrædd.“

„Steinar. Steinar,“ segir Katla systir hennar, sem er vel með á nótunum.

Vilja vera á hótelinu um jólin

Fyrst um sinn dvöldu systurnar hjá ömmu sinni og afa á Lónsleiru í bænum, sem var utan rýmingarsvæðisins, þar til tekin var ákvörðun um að rýma allan bæinn. Þá fóru þær á hótelið.

„Það er búið að vera ógeðslega skemmtilegt,“ segir Edda og endurtekur að skemmtilegast sé að hlaupa á göngunum. Þær frænkur gætu vel hugsað sér að verja jólunum á hótelinu. „Það myndi vera skemmtilegt. Mig langar ekki að vera á Lónsleiru á jólunum. Mig langar að vera hér á jólunum,“ segir Edda.

Á hótelinu hafa þær allt til alls og ekki skemmir fyrir að jólasveinarnir hafa frétt af vistaskiptunum. „Hann gaf mér jólapenna og líka mjúka bók og líka þessa,“ segir Andrea og heldur uppi Barbie-dúkku sem Bjúgnakrækir færði þeim í nótt.

Stelpunum verður þó ólíklega að ósk sinni um að fá að verja jólunum á hótelinu því að á morgun á fyrirhugað að þær snúi aftur í bæinn. „Við erum að fara heim á morgun heim á Lónsleiru en ekki upp í í Botnahlíð,“ segir Edda. Spurð hvort hún myndi vilja fara beint í Botnahlíð svarar hún ábyrg: „Já ef það væru ekki skriður,“ en bætir svo við: „Ég myndi samt ekki vilja það út af því ég má aldrei sofa hjá mömmu og pabba.“

Þrátt fyrir að segjast vilja vera á hótelinu sem lengst viðurkenna þær að þær hlakki smá til að koma til baka. „Ég vona að það sé í lagi með húsin,“ segir Andrea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert