Kópavogsbær var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur til að greiða dánarbúi Sigurðar K. Hjaltested 968 milljónir vegna eignarnáms bæjarins í landi Vatnsenda á árinu 2007.
Í samtali við mbl.is sagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, að ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað muni skýrast eftir áramót.
„Ég ætla ekkert að tjá mig um dóminn að öðru leyti en það að þetta er svona ákveðinn áfangi að dómurinn sé fallinn í héraði, tæpum sjö árum eftir að málið var höfðað,“ sagði Ármann.
Benti Ármann á mörg undanfarin ár hefur verið gerð grein fyrir málinu í ársreikningum Kópavogs.
Þar segir í skýringum við ársreikninginn að verðmæti þess lands sem tekið var eignarnámi 2007 hafi á eignarnámsdegi numið kr. 6.948.000.000. Af þeirri fjárhæð ætti dánarbú Sigurðar K. Hjaltested tilkall til 10-15%.
„Fari málin svo að Kópavogsbær verði dæmdur til að greiða frekari eignarnámsbætur er ljóst að bærinn gæti fært til eignar land að sömu fjárhæð. Áhrif á rekstrarreikning bæjarins yrðu því óveruleg,“ segir svo í skýringunum.