Bóluefnið á sömu tímaáætlun í allri Evrópu

Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, segir Ísland vera á sömu tímaáætlun …
Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, segir Ísland vera á sömu tímaáætlun og aðrir samningsaðilar ESB. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Bóluefni Íslands eru á sömu tímaáætlun og bóluefni allra ríkja sem semja um þau í gegnum ESB, segir Róbert Marshall upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar í samtali við mbl.is, spurður hversu fljótt bóluefnið mun berast hingað til lands. 

„Við erum á nákvæmlega sama samningi og með sömu tímaáætlun og aðrar Evrópuþjóðir,“ segir Róbert. Ísland á möguleika á að ganga inn í alla þá samninga sem ESB gerir. Sama staða sé uppi í öðrum Evrópuríkjum og hér, þ.e.a.s. fátt vitað um tímaáætlun varðandi afhendingu bóluefnisins.

„Óvissan sem er um afhendingu er til staðar vegna þess að framleiðsla lyfjanna er ekki komin lengra,“ segir Róbert.

 „Ég held að það séu örugglega allir að reyna að fá tímalínu og afhendingartíma fram. Það er auðvitað eitthvað sem allir vilja,“ segir hann að endingu.

Óljóst hvenær restin af Pfizer-efninu berst

Ekki náðist í Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við vinnslu fréttarinnar en Iðunn Garðarsdóttir, aðstoðarmaður Svandísar, segir að von sé á 50 þúsund skömmtum fyrir lok mars. Ísland hefur þegar samið við Pfizer um 170 þúsund skammta en ekki liggur fyrir hvenær þeir 120 þúsund skammtar sem eftir standa munu berast.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert