Bólusetning hefst líklega 29. desember

Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir líklegt að bólusetning hefjist …
Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir líklegt að bólusetning hefjist 29. desember í húsnæði stofnunarinnar á Suðurlandsbraut.

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er í óðaönn að undirbúa sig fyrir komandi bólusetningar og útlit er fyrir að efnið verði blandað á einum stað og því dreift þaðan á staði þar sem bólusetning fer fram.

Allt bendir til þess að þau fyrstu verði bólusett 29. desember í húsnæði heilsugæslunnar á Suðurlandsbraut, þar sem sýnataka hefur farið fram hingað til. Bóluefnið berst hingað 28. desember gangi flutningurinn áfallalaust fyrir sig.

Yfirmenn stofnana fræða sitt fólk um bólusetningar

„Nú skiptir máli að við látum þetta ganga hratt fyrir sig,“ segir Óskar í samtali við mbl.is. Lögð er rík áhersla á það að ekkert af bóluefninu fari til spillis, enda þarf að tryggja að það sé geymt við mínus 80 gráður.

Hann gerir ráð fyrir því að þeir 10 þúsund skammtar sem væntanlegir eru muni nægja framlínufólki í faraldrinum, þ.e. heilbrigðisstarfsmönnum, en þó sé ekki ljóst hvort allir í þeim hópi muni vilja bólusetja sig. 

„Það er þó jákvætt að Íslendingar eru mjög jákvæðir gagnvart bólusetningum, höfnun á þeim er innan við 1%. Við stöndum mun betur en mörg önnur lönd,“ segir Óskar. Það komi í hlut yfirmanna á hverri stofnun að fræða sitt starfsfólk um bólusetningarnar og hvetja til þátttöku í þeim.

En á léttu nótunum – er komið í ljós hver verður fyrst bólusettur á Íslandi?

„Það eru komnar einhverjar tillögur að því. Það verður eitthvað skemmtilegt gert í kringum það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka