„Ég er bara að vinna vinnuna mína“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við mbl.is að hún sé með engu móti tekin við af Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra þegar kemur að því að útvega bóluefni við kórónuveirunni fyrir Íslendinga. Undanfarið hefur hún átt samtöl við ýmsa hátt setta aðila til þess að tryggja aðgengi Íslands að bóluefni.

„Ég er bara að vinna vinnuna mína,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. „Þetta verkefni er búið að verða á borði ríkisstjórnarinnar vikum og mánuðum saman og heilbrigðisráðherra hefur auðvitað haft forystu um þetta mál og fer með þetta mál. Mitt hlutverk í þessu er bara eins og allra annarra forsætisráðherra í heiminum.“

Góð samtöl

Katrín segist hafa verið í sambandi við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um stöðu á bóluefnamarkaði í Evrópu. Þá ræddi hún einnig við yfirmann bóluefnasviðs lyfjarisans Pfizer.

Með því segist hún vera að verja hagsmuni Íslands en ekki síður til þess að taka púlsinn hlutaðeigandi aðilum og kanna stöðuna.

„Ég er náttúrlega búin að vera í sambandi við til dæmis Ursulu von der Leyen nokkrum sinnum útaf þessum málum og er auðvitað bara að sinna mínu hlutverki í því að taka þátt í því að verja hagmuni Íslands.“

„Þannig að það skiptir máli bæði að minna á sig og líka bara mikilvægt að glöggva sig betur á stöðunni sem er síbreytileg frá degi til dags. Og ef það er eitthvað sem ég tek út úr mínum símtölum við fólk þá er það í raun og veru bara það að það hélt eiginlega enginn að við yrðum komin á þennan stað í desember að vera að byrja að bólusetja. Ég hélt það ekki og ég held að enginn hafi reiknað með því að þetta myndi taka svona skamman tíma.“

Hröð þróun

Þá segir Katrín einnig að framþróun bóluefna í heiminum sé hröð. Hún minnir á mikilvægi þess að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni í því sambandi. „Og það er þannig að við erum að sjá breytingar gerast bara frá degi til dags, viku til viku í bæði framþróun, nú fer væntanlega að styttast í veitingu markaðsleyfis fyrir Moderna, þannig þetta er að gerast mjög hratt.“

„Ég tel að það hafi verið rétt að gera þetta eins og við gerðum þetta, í samfloti með Noregi og Evrópusambandinu. Ég tel að það sé að gefast vel. Það er svo mikilvægt að einmitt hafa ekki veðjað á einn hest heldur vera með öll þessi fyrirtæki undir. Sko, ég vil bara minna á að framan af var það AstraZeneca sem allir héldu að yrðu fyrstir sko.

Svo einhvern veginn æxlast þetta einhvern veginn öðruvísi þannig ég tel að við höfum staðið gríðarlega vel að þessu. En ég meina auðvitað eru þjóðir heims, allar, að gæta sinna hagsmuna. Við erum að því líka. Það er bara okkar hlutverk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert