„Ég var hrikalega mjór“

Handleggir Guðmundar fela ekki feril hans í stálinu og ekki …
Handleggir Guðmundar fela ekki feril hans í stálinu og ekki er frúin ómyndarleg heldur. Svona eru jólin í Drammen. Guðmundur heldur á Tíönu og Inga á Caspian, barnabörnum þeirra og börnum Örnu dóttur þeirra. Neðst til hægri er íslenska tíkin Svala. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum bæði úr Reykjavík en Inga á sér reyndar skagfirskar rætur,“ segir Guðmundur Bragason, alls tífaldur Íslandsmeistari í vaxtarrækt og bekkpressu á öldinni sem leið og rafeindavirki að mennt, búsettur ásamt börnum og eiginkonu sinni, Ingu Steingrímsdóttur, einnig þekktri vaxtarræktarkonu, þreföldum Íslandsmeistara á þeim vettvangi í gamla daga og nú einkaþjálfara, í Drammen í Noregi.

„Ég fékk tilboð um vinnu í Fjallasporti, fyrirtækið var þá að opna hérna í Drammen, þetta var 2001,“ segist Guðmundi frá í þessu fyrsta af alls fimm jólaspjöllum mbl.is við Íslendinga búsetta erlendis sem birtast munu næstu daga.

Guðmundur hafði áður verið framkvæmdastjóri líkamsræktarstöðvarinnar Betrunarhússins sem rótgrónir Garðbæingar muna eftir við Garðatorgið þar í bæ en fékk tilboð frá vini sínum í Fjallasporti sem vantaði öflugt fólki í Noregsútibúinu.

Létu reyna á Noregsbúsetu

Fjallasport hætti rekstri en Reynir Jónsson, æskuvinur Guðmundar sem bast honum ævarandi vinaböndum í skátunum fyrir margt löngu, hafði þá byrjað með Fjallasport á Íslandi eftir að hann lauk störfum hjá Arctic Trucks, jeppafyrirtæki Toyota-umboðsins. Hann stofnaði svo eigið útibú Fjallasports í Noregi, en Örn Thomsen hóf rekstur Arctic Trucks í Noregi og tók yfir starfsemi Fjallasports. Er sú flétta ekki örugglega nógu flókin?

Hrikalegir Íslandsmeistarar í vaxtarrækt 1990, Inga og Guðmundur. Í baksýn …
Hrikalegir Íslandsmeistarar í vaxtarrækt 1990, Inga og Guðmundur. Í baksýn er enginn annar en Kjartan Guðbrandsson, gamall stálhundur. Myndina tók Jóhann A. Kristjánsson, fyrrverandi skólastjóri og ljósmyndari á DV, sem veitti mbl.is góðfúslegt leyfi til að birta hana, en Jóhann heldur úti athyglisverðri síðu á Facebook, JAK kraftasport, þar sem hann birtir myndir frá vaxtarræktarmótum horfinnar aldar. Ljósmynd/Jóhann A. Kristjánsson

„Við Inga ákváðum bara að láta reyna á þetta, fjölskyldan var að stækka og við vorum að selja íbúðina hvort sem er svo ég kem hérna haustið 2001 og er svo fram og til baka fram á sumar 2002 og þá flytjum við öll hingað, 1. júlí,“ segir Guðmundur. „Við höfum búið í Drammen æ síðan, meira að segja við sömu götuna,“ bætir hann við og segir þau hafa verið stálheppin í húsnæðismálum.

Húsnæðismál fjölskyldunnar þróuðust með sérstökum hætti. Þau eignuðust norska vini, vinahóp í raun, þar sem einn átti stóra lóð. „Og við byggðum hús þar,“ segir Guðmundur. Þá áttu þau Inga þrjú börn, Örnu Sif, Andra Snæ og Dönu Björgu, fædd 1992, 2000 og 2002. Síðan hefur þeim hjónum, sem giftu sig 1994, orðið tveggja barnabarna auðið þótt ung séu, Inga 49 ára og Guðmundur 55.

Vinirnir hættu en Guðmundur hélt áfram

Hann er menntaður rafeindavirki þrátt fyrir að hafa lítið starfað við fagið. „Ég vann við það í nokkra mánuði en það var svo leiðinlegt að ég gafst upp,“ segir Guðmundur og hlær. Þau Inga störfuðu bæði við einkaþjálfun sem hún sinnir enn þá hjá norska líkamsræktarrisanum SATS, stærstu líkamsræktarkeðju Noregs sem einnig er mjög stór um gervalla Skandinavíu.

Nú verður það að játast að sá sem hér skrifar fylgdist töluvert með Guðmundi þegar hann var á toppnum í vaxtarræktinni á Íslandi á níunda áratugnum. Blaðamaðurinn var þá um fermingu og að hefja eigin lóðalyftingar. Hvernig hófst lóðaríið hjá Guðmundi?

Dana, dóttir Guðmundar og Ingu, æfir handbolta af kappi með …
Dana, dóttir Guðmundar og Ingu, æfir handbolta af kappi með fyrsta flokki hjá Reistad. „Ef þú ætlar að minnast á motocross þarftu eiginlega að segja frá því, annars fer hún í fýlu út í mig,“ segir Guðmundur glettinn. Ljósmynd/Andreas Kristoffer Berge

„Ja, það var nú þannig að vinir mínir voru að æfa. Þeir drógu mig með sér þegar ég var 19 ára. Svo hættu þeir en ég hélt áfram,“ segir Guðmundur, gömul og sígild saga fólks sem ílengist í einhverju. „Svo leiddi eitt bara af öðru, ég var hrikalega mjór svo vöðvarnir sáust fljótt, svo datt ég á sviðið og svo bara jókst þetta einhvern veginn,“ segir Guðmundur um feril sinn en hann keppti jafnframt í bekkpressu og á 187,5 kíló í guðsgreininni sem innvígðir kalla svo.

Hjá Stebba í Orkulind

Æskuminningarnar streyma fram þegar Guðmundur tekur að rifja upp líkamsræktarstöðvar árdaganna. „Ég byrjaði í Orkulindinni hjá Stebba [Stefáni Hallgrímssyni],“ segir hann. „Þar sáum við Inga hvort annað fyrst en kynntumst í Kjörgarði [við Laugaveg]. Svo var það Borgartúnið [sem Finnur heitinn Karlsson rak], World Class og Betrunarhúsið,“ segir Guðmundur sem hefur marga fjöruna sopið í stálinu.

Andri býr sig undir keppni í Motocross of nations-mótinu á …
Andri býr sig undir keppni í Motocross of nations-mótinu á Ítalíu 2016 en það sport stundaði hann í ellefu ár, frá átta til 19 ára aldurs. Pabbi hagræðir hjálminum og peppar. Ljósmynd/Aðsend

„Ég byrjaði að æfa 9. maí 1984, þá keypti ég fyrsta mánaðarkortið hjá Stebba,“ rifjar Guðmundur upp. Þau Inga hafa lengi fengist við einkaþjálfun sem fyrr segir, Inga enn þá en Guðmundur hætti fyrir fjórum árum segir Inga eftir að Guðmundur skaut á eitt og hálft ár. „Hlustaðu bara á Ingu, hún veit þetta,“ segir Guðmundur og þau hjónin hlæja bæði.

Hann starfar nú hjá verktakafyrirtækinu Consolvo sem annast mestmegnis viðhald á brúm. „Ég sé um lagerinn hjá þeim,“ segir Guðmundur. Blaðamaður spyr hvort slíkt sé ekkert mál fyrir rafeindavirkja ofan af Íslandi þrátt fyrir að vita svarið eftir margra ára starf við það sama í olíubransanum í Stavanger.

„Nei nei, þetta er bara heilbrigð skynsemi,“ segir Guðmundur enda virðast Íslendingar ekki gera annað en að blómstra á norskum vinnumarkaði, eftirsóttir í vinnu, harðduglegir og fljótir að ná tungumálinu.

Heima á jólunum

Hvað með eiginkonuna, Ingu, hvernig er hennar upplifun af tæplega 20 ára búsetu í Noregi? „Eins og Gummi sagði vorum við rosalega heppin, duttum hér inn í hóp góðra vina, fengum vinnu um leið, ég var auðvitað heima með tvö lítil börn fyrstu tvö árin en þetta gekk afskaplega vel,“ segir Inga.

Inga er ánægð með tíma þeirra hjóna og barnanna í Noregi, þau fari þó gjarnan heim til Íslands og kaupi jólamatinn þar. „Við förum til að sækja en höldum jólin hér,“ skýtur Guðmundur inn í. „Ég á mömmu á lífi og Gummi á pabba á lífi og auðvitað finnst okkur gott að hitta okkar fólk á Íslandi en við viljum vera heima hjá okkur á jólunum,“ segir vaxtarræktarkonan og einkaþjálfarinn.

Stórfjölskyldan í Drammen, Muiz Kiani, fóstursonur Guðmundar og Ingu, Dana …
Stórfjölskyldan í Drammen, Muiz Kiani, fóstursonur Guðmundar og Ingu, Dana Björg, Guðmundur heldur á Caspian og Inga á Tiönu, börnum Örnu Sifjar sem er svo næst á myndinni, barnabarnið Than og Andri Snær í lokin. Ljósmynd/Aðsend

Eins séu þau hjón heima hjá sér um áramótin, ekkert að þvælast. Þau segjast hafa verið ákaflega heppin með norsku vinina sem þau kynntust, börnin eigi alla sína vini í Noregi og þau hjónin sjái ekki fram á annað en að dvelja áfram í faðmi frændþjóðarinnar.

„Þá var þetta náttúrulega ekkert mál, við seldum bara íbúðina og allt sem við áttum og fluttum,“ segir Inga og vísar til ferlisins við að fá norska kennitölu og flytja lögheimilið sem nú er orðið mun þyngra ferli, til dæmis bráðabirgðakennitölu, eða D-númers, krafist í hálft ár, einnig af Íslendingum, en þannig var það ekki áður.

Var ekkert mál þá

„Við leigðum hérna fyrst í kjallara hjá vini okkar og fengum lánuð garðhúsgögn,“ segir Guðmundur. „Bankareikningur, sími og kennitala, þetta var ekkert mál á þessum tíma.“

Þau hjónin eru sammála um að frábært sé að vera á norskum vinnumarkaði sem Íslendingar. „Okkur Íslendingum er mjög vel tekið hér og þessi ár okkar hérna hafa bara verið með besta móti,“ segir Inga Steingrímsdóttir og slær botninn í skemmtilegt spjall við þau Guðmund Bragason í Drammen í Noregi.

Skemmtilegir viðmælendur helmassaðir í fríi í Marbella, Gummi og Inga …
Skemmtilegir viðmælendur helmassaðir í fríi í Marbella, Gummi og Inga Drammensbúar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert