Maðurinn sem er í haldi lögreglunnar á Austurlandi segist ekki kannast við að hafa hótað lífi forsætisráðherra. mbl.is náði tali af manninum á meðan hann beið á lögreglustöðinni fyrir austan.
Jonathan Moto Bisagni er íbúi á Seyðisfirði og situr nú á lögreglustöð hjá lögreglunni á Austurlandi.
Hann segir að ástæða þess að hann hafi verið tekinn í hald lögreglu sé að hann hafi hringt í nokkra þingmenn og reynt að útskýra fyrir þeim stöðuna á Seyðisfirði.
Þá hafi lögreglan í Reykjavík hringt í hann og sagt hann hafa hótað Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, eitthvað sem hann kannaðist ekki við.
„Lögreglan vildi að ég kæmi á lögreglustöðina, það væri verið að leita að mér og spurði mig hvar ég væri staddur,“ sagði Jonathan.
Hann hafi svo verið upplýstur um þetta væri vegna þess að ráðherrar væru að koma þangað sem hann væri staddur og hann hafi átt að hafa hótað þeim.
Aðspurður segir Jonathan að líklega hafi það verið tónninn í röddinni hans sem hafi verið litið á sem hótun. „Ég var bara að segja sannleikann,“ segir hann.
Jonathan tjáði sig við blaðamann mbl.is nýlega og þar sem hann hafði ýmislegt út á viðbrögð stjórnvalda við aurskriðunum að setja.