Fjórir ráðherrar og föruneyti þeirra eru lentir á Egilsstöðum. Stefnan er sett á Seyðisfjörð þar sem ráðherrarnir munu kynna sér aðstæður eftir skriðuföllin síðustu daga og ræða við íbúa.
Ráðherrarnir fjórir eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
„Það er mikilvægt að koma og hitta heimafólk og sjá hvað við hvað við getum gert næstu daga,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Viðar Guðjónsson blaðamann mbl.is á vettvangi. Ráðherrarnir muni funda með fólki á Egilsstöðum og kíkja í björgunarmiðstöðina en einnig skoða aðstæður á Seyðisfirði.
Með í för er Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Hann segir að í dag verði lagður grunnur að undirbúningi verkefna til lengri tíma, er tengjast hamförum á Seyðisfirði. „Við erum að fara inn í eftirmála hamfara, sem eru því miður aðstæður sem við höfum gengið í gegnum áður,“ segir Víðir.