Varanlegar aðgerðir til að verja Seyðisfjarðarbæ við skriðuföllum eru í undirbúningi og hefur EFLA verkfræðistofa, í samvinnu við svissneska sérfræðinga, unnið að frumathugun varna vegna skriðuhættu fyrir svæðið. Reiknað er með að tillögur að aðgerðum í fyrsta áfanga ofanflóðavarna fyrir Botnasvæðið liggi fyrir vorið 2021.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Líkur eru á að fyrstu aðgerðir snúi að því að beina aurflóðum og skriðum í ákveðna farvegi og setþrær sem og auka rannsóknir og vöktun á svæðinu. Þessi vöktun og rannsóknir eru nauðsynlegar til að undirbúa hönnun framkvæmda til að lækka grunnvatnsborð og leiða vatn út úr setlögum til þess að auka stöðugleika þeirra. Markmið varnaraðgerðanna er að tryggja öryggi íbúa á svæðinu. Einnig er stefnt að því að hefja framkvæmdir við snjóflóðavarnir á Seyðisfirði á næsta ári.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ásamt fulltrúum ráðuneytisins fundaði í gær með sveitarstjóra Múlaþings og forseta sveitarstjórnar vegna aurskriðanna sem féllu á Seyðisfirði í síðustu viku.
Ráðgert er að ráðherra, ásamt sérfræðingum ráðuneytisins og Veðurstofu Íslands, muni fara til Seyðisfjarðar og eiga fund með heimafólki í janúar þar sem meðal annars verður farið yfir stöðu og áframhald vinnu við uppbyggingu varna, að því er segir í tilkynningu.
Jarðfræðirannsóknir Veðurstofu Íslands, sem voru unnar á árabilinu 2003 til 2017, sýna að stórar, forsögulegar skriður hafa fallið á svæðinu þar sem suðurhluti Seyðisfjarðarbæjar stendur nú. Ummerkin um forsögulegu skriðurnar sýndu að endurskoða þurfti ofanflóðahættumatið frá 2002 undir Neðri-Botnum í suðurhluta bæjarins. Endurskoðað og útvíkkað hættumat fyrir Seyðisfjörð var staðfest af umhverfis- og auðlindaráðherra í mars 2020.
„Hugur okkar allra er hjá Seyðfirðingum sem takast nú á við mjög erfiðar og krefjandi aðstæður. Það er aðdáunarvert að fylgjast með samstöðunni í Múlaþingi, sem hefur sýnt sig svo glöggt undanfarna daga. Ég sendi mínar hlýjustu kveðjur austur,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilkynningunni.
Alþingi samþykkti nýverið fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár, en hún gerir ráð fyrir auknum framlögum ríkisins til byggingar varnarmannvirkja vegna ofanflóða um 1,6 milljarða króna árlega og stendur árleg fjárheimild næstu ára í um 2,7 milljörðum króna. Þetta aukna fjármagn hefur í för með sér að uppbyggingu ofanflóðamannvirkja á hættusvæðum í byggð á Íslandi verður flýtt um 25 ár og ætti að verða lokið um 2030.