Fá að sækja eigur fyrir jól

Unnið er að hreinsun utan rýmingarsvæðisins.
Unnið er að hreinsun utan rýmingarsvæðisins. Ljósmynd/Lögreglan

Íbúar á Seyðisfirði, sem búa innan rýmingarsvæðis, geta gefið sig fram í Ferjuhúsinu í dag og fengið fylgd í húsin sín til að sækja nauðsynjar og aðrar eigur sem þeir vilja hafa yfir jólin. Er þetta sama fyrirkomulag og síðustu daga.

Eftir það verður hins vegar ekki heimilt að fara inn á rýmingarsvæðið vegna óhagstæðrar veðurspár. Gert er ráð fyrir að hiti geti náð allt að átta gráðum og þá getur snjór farið að bráðna í fjöllum. Að því er segir í tilkynningu frá lögreglu geta þær aðstæður raskað þeim stöðugleika sem myndast hefur í skriðusárum og má búast við einhverri hreyfingu á svæðinu.

Staðan verður endurmetin á ný þegar kólna fer aftur en rýmingin verður ekki endurskoðuð fyrr en 27. desember, þegar áætlað er að hefja skipulagða vinnu við hreinsun og viðgerðir.

Þjónustumiðstöð almannavarna er til húsa í Herðubreið, menningar- og félagsheimili Seyðisfjarðar, og verður opin í dag, Þorláksmessu, frá kl. 11-18, dagana 27.-30. desember frá 11-18 og á gamlársdag frá 11-13.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sjást hér á …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sjást hér á Seyðisfirði í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka