Heilbrigðisráðuneytið hefur fallist á gagnrýni, sem fram kom í umsögnum um drög að nýrri reglugerð um lyfjaverð. Niðurstaðan varð því sú, að ákvæði um viðmiðunarlönd verði óbreytt frá fyrri reglugerð og að þar verð áfram miðað við Norðurlönd. Sömuleiðis að hámarksverð á Íslandi miðist við meðalverð en ekki lægsta verð í EES-löndum eins og ráðgert var.
Þar ræðir um veigamestu breytingarnar, sem mestu hefðu skipt, en lyfjafyrirtæki – innlend sem erlend – vöruðu eindregið við því að nær ómögulegt væri að starfa í því umhverfi og að lyfjaöryggi í landinu yrði stefnt í voða með henni. Sama afstaða kom fram frá Lyfjafræðingafélagi Íslands og sjúklingasamtökum.
Gerðar voru ýmsar athugasemdir aðrar, en ráðuneytið hefur fallist á að fara í frekari vinnu og samráð við hagsmunaaðila um það eftir áramót með það fyrir augum að sníða þá agnúa af reglugerðinni. Hún tekur gildi um áramót, um leið og ný lyfjalög.
Jakob Falur Garðarson er framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka framleiðenda frumlyfja, er að vonum ánægður. „Þetta er rosalega mikill léttir,“ segir Jakob. „Eins og segir í niðurstöðunni hefur ráðuneytinu ekki unnist tími til annars en að bregðast við þessum stærstu ásteytingarsteinum, en síðan verður reglugerðin endurskoðuð í samráði við hagsmunaaðila á fyrsta ársfjórðungi 2021. Það er það besta sem gat gerst, þetta er besta niðurstaða, sem búast mátti við, og gott að ráðuneytið sá að sér, svo það er ekki bara valtað yfir lyfjageirann í þessu mikilvæga máli.“
Jakob telur að þarna hafi átt sér stað mistök, sem nú er verið að vinda ofan af. „Þarna kristallast kannski veik stjórnsýsla, því þessi lög hafa verið langalengi í smíðum, en reglugerðardrögin stungu svo upp kollinum með nánast engum fyrirvara rétt fyrir jól. Þar í er eitt og annað, sem þarf að færa til betri vegar, og hefði sjálfsagt verið sáraeinfalt og eðlilegt að gera ef reglugerðardrögin hefðu verið kynnt hagsmunaaðilum meðan þau voru enn í vinnslu.“
Hann telur þó gott að ráðuneytið hafi brugðist svo skjótt við ábendingum um augljósa galla, enda örskammur tími til stefnu. Það komi í veg fyrir að lyfjaöryggi í landinu kæmist í uppnám, sem varðaði alla landsmenn. „Það er góð jólagjöf.“
Nýja reglugerðin hefur ekki enn verið birt, en gert er ráð fyrir að hún komi í Stjórnartíðindum síðar í dag.