Landspítali hefur bólusetningar á þriðjudaginn

Frá bólusetningu í Fort Lauderdale í Flórída í dag.
Frá bólusetningu í Fort Lauderdale í Flórída í dag. AFP

Landspítali mun hefja bólusetningu starfsfólks vegna Covid-19 næstkomandi þriðjudag, 29. desember, að því tilskildu að bóluefni berist til landsins á áætluðum tíma. Um 770 einstaklingum verður alls boðin bólusetning í fyrstu umferð bólusetninga. Vonir standa til þess að bólusetningu hópsins verði lokið 30. desember næstkomandi.

Þetta kemur fram á vef spítalans. 

Samkvæmt forgangsröðun sóttvarnalæknis og reglugerð heilbrigðisráðherra um forgangsröðun í bólusetningu við Covid-19 er starfsfólki bráðamóttöku í Fossvogi, bráðamóttöku barna, gjörgæsludeilda og Covid-19-göngudeildar boðin bólusetning. Þá verður starfsfólki sem tók aukavaktir á þessum deildum í þriðju bylgju Covid-19 einnig boðin bólusetning.

770 manns í fyrstu umferð

Öðrum hópum starfsfólks verður boðin bólusetning þegar meira kemur af bóluefni til landsins. Ekki verður hægt að geyma skammta fyrir þá starfsmenn sem af einhverjum ástæðum ekki komast á boðuðum tíma. 

„Að lokinni bólusetningu þarf starfsmaður að bíða í 15 mínútur til að fylgjast með hvort ofnæmisviðbrögð vegna bólusetningarinnar geri vart við sig. Gera þarf ráð fyrir að bólusetningarferlið taki 20-30 mínútur. Eftir biðtímann fer starfsmaður út um dyr á matsal í Skaftahlíð,“ segir á vef spítalans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert