Mesta traffík sem sést hefur lengi

Mikil umferð var á Keflavíkurflugvelli fyrir jólin.
Mikil umferð var á Keflavíkurflugvelli fyrir jólin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flugumferð um Keflavíkurflugvöll sl. föstudag og laugardag er sú mesta í margar vikur og jafnvel mánuði, enda var þá ákjósanlegast að fljúga til landsins til þess að klára sóttkví milli fyrri og seinni skimunar fyrir jól, en þeir sem komu til landsins á laugardag fara í seinni skimun á aðfangadag, að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. Ljósmynd/Isavia

„Þetta gekk allt mjög vel. Við höfðum lagt áherslu á það að farþegar á leið úr landi myndu mæta um það bil þremur klukkustundum fyrir brottför til þess að jafnt álag yrði á öryggisleitinni okkar. Síðan báðum við fólk að vera ekki að sækja vini og vandamenn sem voru að koma til landsins,“ segir hann.

Næstu álagspunktar sem Isavia sér fyrir sér eru 2. og 3. janúar næstkomandi en Isavia hefur verið í nokkru samstarfi við flugfélög um að koma viðeigandi upplýsingum til sinna farþega, til þess að takmarka hópamyndun á flugvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert