Norræn lyfjafyrirtæki telja sér vart vært

Allar umsagnir um ný reglugerðarlög telja þau hvorki samrýmast markmiðum …
Allar umsagnir um ný reglugerðarlög telja þau hvorki samrýmast markmiðum lyfjalaga né bókstaf þeirra og að lyfjaöryggi skerðist. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Erlend lyfjafyrirtæki telja drög að reglugerð heilbrigðisráðherra um verðlagningu og greiðsluþátttöku lyfja til þess helst fallin að draga úr lyfjaframboði í landinu, að þau endurskoði þátttöku á íslenskum lyfjamarkaði, jafnvel að þau dragi sig alfarið af honum.

Þetta kemur fram í umsögnum erlendu lyfjaframleiðendanna Sanofi í Noregi, Ferring í Svíþjóð og Novo Nordisk í Danmörku, sem þau sendu í samráðsgátt íslenskra stjórnvalda.

Reglugerðardrögin taka að óbreyttu gildi um áramót og geta haft veruleg áhrif á framboð lyfja hér á landi, ekki þá síst hvað varðar ný lyf. Nú þegar eru mun færri lyf markaðssett á Íslandi en gerist á Norðurlöndum. Þannig eru aðeins 3.556 lyf á markaði hér á landi, en þau eru 9.147 í Noregi.

Umsagnir íslenskra lyfjainnflytjenda og framleiðenda um reglugerðardrögin eru mjög á eina leið, en þar er sérstaklega fundið að því að hámarksverð á Íslandi skuli vera lægsta verð í viðmiðunarlöndunum, sem eru ríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Nær ómögulegt sé að verða við því, enda íslenskur markaður sá smæsti í OECD og engin leið að ná hagstæðu verði í krafti magns. Við bætast vegalengdir, íslenskar merkingar og leiðbeiningar, sem allt auki kostnaðinn.

Afleiðingin verði því óhjákvæmilega sú að lyfjaskráningum hér fækki enn meira og samkeppni minnki, sem og lyfjaframboð og lyfjaöryggi. Þá sé veruleg hætta á að erlend lyfjafyrirtæki dragi sig einfaldlega af markaði sem svari ekki kostnaði. Nú þegar eru ýmis lyfjafyrirtæki, sem kjósa að starfa ekki á Íslandi og hætt er við að þeim fjölgi, sem áhrif geti haft á lyfjaöryggi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert