Vilja fjölga íbúðum á Akranesi

Stefnt er að því að stuðla að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á …
Stefnt er að því að stuðla að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Akranesi. mbl.is

Vilji er fyrir því að fjölga íbúðum, efla stafræna stjórnsýslu og koma upp upplýsingagátt hjá Akraneskaupstað. Til stendur að stuðla að auknu húsnæðisöryggi leigjenda með því að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komi í húsnæðismálum hvað varðar fyrirsjáanlegan skort á leiguhúsnæði í sveitarfélaginu, að því er segir í fréttatilkynningu frá Akraneskaupstað.

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, Soffía Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Leigufélagsins Bríetar og Hermann Jónasson forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar undirrituðu viljalýsingu þess efnis í gær.

Eins er vilji fyrir því að greina samspil húsnæðiskostnaðar og almenningssamgangna á vaxtarsvæðum, efla stafræna stjórnsýslu húsnæðis- og byggingarmála í sveitarfélaginu og auka skilvirkni í skipulagsmálum.

Verkefnið mun stuðla að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samræmi við þá húsnæðisþörf sem metin er í húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar. Í áætluninni kemur m.a. fram að töluverð þörf sé fyrir aukið framboð af leiguhúsnæði á Akranesi fyrir mismunandi félagshópa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka