Nánast allar kirkjur landsins bjóða upp á einhvers konar streymisþjónustu yfir hátíðarnar, að sögn Péturs G. Markan, samskiptastjóra Biskupsstofu. Hann mælir með því að fólk leiti sína hverfiskirkju uppi á Facebook þar sem flestar sóknir bjóða upp á streymisþjónustu þar, sama hvort um ræðir aftansöng, bænastund eða söngstund.
Streymt verður frá helgistundum á mbl.is í kvöld.
„Það stórkostlega við þennan Covid-tíma er að kirkjan hefur tekið alveg ótrúlegt stökk í að tæknivæða sig,“ segir Pétur.
„Við hvetjum fólk til að leita uppi sína hverfissókn,“ bætir hann við.
Þá verður helgistund með biskupi Íslands sjónvarpað klukkan hálfníu í kvöld á RÚV. Einnig verður hátíðarmessu með biskupi sjónvarpað klukkan ellefu á jóladag, einnig á RÚV. „Kirkjan hefur aldrei verið jafn virk í fjarþjónustu,“ segir Pétur.
Hann telur að fjarþjónustan sé komin til að vera þótt að sjálfsögðu muni starfsfólk þjóðkirkjunnar taka vel á móti fólki í kirkjum landsins þegar faraldrinum lýkur.
Í kvöld klukkan sex verður messu frá Dómkirkjunni útvarpað hjá Ríkisútvarpinu eins og vant er.