„Háttvirtur ráðherra“ í ólöglegu samkvæmi

Um hálfellefuleytið í gærkvöldi barst lögreglunni tilkynning um brot á reglum um lokun samkomustaðastarfsemi vegna sérstakrar smithættu og brot á reglum um fjöldasamkomu.

„Lögregla var kölluð til vegna samkvæmis í sal í útleigu í miðbæ Reykjavíkur. Veitingarekstur er í salnum í flokki II og ætti því að vera lokaður á þessum tíma. Í ljós kom að 40-50 gestir voru samankomnir í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands,“ segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Líktu lögreglunni við nasista

„Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímu fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi hefðu fjarlægðartakmörk verið virt. Lögreglumenn sáu aðeins þrjá sprittbrúsa í salnum. Lögreglumenn ræddu við ábyrgðarmenn skemmtunarinnar og þeim kynnt að skýrsla yrði rituð. Þá var gestum vísað út. Þegar gestir gengu út voru flestir búnir að setja upp andlitsgrímu. Gestirnir kvöddust margir með faðmlögum og einhverjir með kossum. Einn gestanna var ósáttur með afskipti lögreglu og líkti okkur við nasista.“

60 manns á tónleikum 

Afskipti voru höfð af tónleikagjörningi utandyra í miðbæ Reykjavíkur um ellefuleytið í gærkvöldi. Um 60 manns voru þar samankomin og mátti greina ölvunarástand á vettvangi.  Lögregla lét slökkva strax á tónlistinni. Maður kynnti sig sem ábyrgðarmann  skemmtunarinnar og sagðist hann hafa auglýst viðburðinn á Facebook. Maðurinn var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt, að því er kemur fram í dagbókinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka