Jólakúlan reiknuð fram og til baka

Sigrún Elísabeth Arnardóttir og börn hennar.
Sigrún Elísabeth Arnardóttir og börn hennar. mbl.is/Árni Sæberg

Jólin verða með öðruvísi brag en við eigum að venjast og ekki þarf að fjölyrða um ástæðu þess. Sóttvarnayfirvöld beindu því til almennings að búa til sína „jólakúlu“, að halda ekki fjölmennari jólaboð en fyrir 10 manns.

Fyrir margar fjölskyldur verður þetta dálítið flókið og ein þeirra býr á Selfossi. Sigrún Elísabeth Arnardóttir sálfræðingur á 10 börn á aldrinum 5 til 24 ára, 3 stjúpbörn, 5 tengdabörn, 6 barnabörn og 2 fósturbörn, alls 27 manns í nánustu fjölskyldu. Eru þá afar og ömmur og frændur og frænkur ekki talin með.

Ekkert boð milli jóla og nýárs

Sigrún segist þó prísa sig sæla með að þríeykið ákvað að börn fædd 2005 og síðar teldust ekki með í fjöldatakmörkuninni. Elstu börnin eru flutt að heiman og í dag, aðfangadag, ná þau að vera níu saman, eldri en 15 ára, og átta börn.

„Við höfum alltaf verið saman á aðfangadag og náum einnig að vera saman núna þessi jól. Við erum því bara glöð og þakklát yfir að fá að njóta jólanna saman,“ segir Sigrún.

Sigrún við vegglistaverk eftir Helmu Þorsteinsdóttur, með nöfnum allra 10 …
Sigrún við vegglistaverk eftir Helmu Þorsteinsdóttur, með nöfnum allra 10 barna hennar. mbl.is/Árni Sæberg

Hins vegar nær ekki öll stórfjölskyldan að hittast í jólaboði á milli jóla og nýárs, líkt og hefð er fyrir á mörgum heimilum. Í því boði hefðu verið minnst 27 manns.

„Við verðum bara að fresta boðinu fram í janúar eða fram að næstu fjöldatilslökun. Við munum þá vonandi geta slegið upp einni veglegri fjölskylduveislu þar sem 10 fjölskyldumeðlimir okkar eiga afmæli í janúar og febrúar. Því verða næg tilefni til að fagna,“ segir hún.

Sigrún bjó ásamt fjölskyldu sinni lengst af á bænum Eyjanesi í Hrútafirði. Fyrir tveimur árum flutti hún til Selfoss og keypti þar gistiheimili undir allan hópinn. Gera þurfti smávægilegar breytingar á húsnæðinu og náðist að flytja inn rétt fyrir jólin 2018. Sigrún átti þá eina önn eftir í mastersnámi sínu í sálfræði og keyrði nær daglega yfir Hellisheiðina þann veturinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert