Boðið að vera Lísa í Undralandi

Hrafnhildur, eða Krumma, hótelskólastjóri í Frakklandi, hægra megin á myndinni, …
Hrafnhildur, eða Krumma, hótelskólastjóri í Frakklandi, hægra megin á myndinni, ásamt Selju Sif dóttur sinni á Honfleur á Normandie í sumar. Covid-grímurnar klárar í vasanum. Ljósmynd/Aðsend

„Já, við bara stungum af, ákváðum að taka fyrstu jólin á Íslandi í tíu ár, nú var verið að setja á útgöngubann aftur í Frakklandi og við nenntum ekkert að standa í því. Ég átti gamla flugmiða sem var búið að færa hundrað sinnum svo við bara drifum okkur.“

Þetta segir Hrafnhildur Jónsdóttir, eða Krumma í daglegu tali, aðstoðarforstjóri hótelstjórnendaskólans Groupe Accelis Education, skammt aust­ur af Par­ís, og um leið skólastjóri tveggja slíkra skóla í landinu, í samtali við mbl.is, en hún er stödd á Íslandi yfir hátíðina.

Búseta Hrafnhildar í Frakklandi nær aftur til 1995, hún er gift hinum franska Nabil Lamouri, sem er af alsírskum uppruna, miklum Íslandsvini, og hefur þeim orðið þriggja barna auðið, þeirra Selju Sifjar, Mishaal Helga og Linuh Hindar.

„Þetta er orðið býsna langur tími, ég geri mér það ljóst. Þegar ég var að klára stúdentspróf úr MH á sínum tíma ætlaði ég að fara beint í íþróttakennaranám á Laugarvatn,“ segir Hrafnhildur sem æfði fimleika af kappi á æskuárum sínum í Garðabæ þar sem hún bjó frá fæðingu í desember 1973.

Örlögin gripu í taumana

„Það var bara ekki spurning um annað. Svo lenti ég í smá bílslysi, engu alvarlegu en nógu alvarlegu til að ég gat ekki haldið áfram í íþróttunum svo ég ákvað bara að drífa mig út í heim. Ég fór með bestu vinkonu minni, Hjördísi Rögn Baldursdóttur, bara með bakpokann í febrúar 1995, og við fórum til Frakklands. Ég fór aldrei neitt lengra, en ég á bakpokann enn þá,“ segir Hrafnhildur og hlær.

Hún kom sér heldur betur inn á franska vinnumarkaðinn þar sem hún stjórnar nú tveimur skólum, öðrum þeirra stjórnunarskóla í hótelbransanum og hinum á sviði stafrænnar markaðssetningar.

„Við Hjördís vorum nú bara túristar fyrst, vorum að vinna á veitingastöðum fyrst, en svo fékk ég vinnu í Eurodisney þar sem ég komst inn í hótelbransann, byrjaði í móttökunni og endaði á að vinna á fjölda hótela.“

Jólum fagnað á Íslandi í fyrsta sinn í áratug í …
Jólum fagnað á Íslandi í fyrsta sinn í áratug í bústað í Bláskógabyggð. Frá vinstri: Linah Hind, Selja Sif, Mishaal Helgi, Hrafnhildur og Nabil. Ljósmynd/Aðsend

Þetta sérstaka ferðalag hófst þó á athyglisverðan hátt. „Þegar þú byrjar að vinna hjá Disney færðu bara vinnu í garðinum til að byrja með. Ég var fyrst að vinna á tæki úr Star Wars og ég var í marga mánuði að spyrja gesti hve margir þeir væru saman í hóp og svo framvegis, ég gerði ekkert annað fyrst,“ segir Hrafnhildur.

Hótelstarfsmaður eða Lísa í Undralandi

Ekkert hafi verið í boði fyrst annað en skammærir ráðningarsamningar. „Svo þegar því lýkur ferðu í hæfnispróf, þú þarft til dæmis að standa og syngja og gera alls konar hluti. Eftir það bjóða þeir þér annaðhvort að vera eða fara, þetta er mjög formlegt,“ segir Hrafnhildur frá.

„Mér voru svo boðin tvö störf í framhaldinu, annaðhvort að vera í móttöku á hóteli eða vera Lísa í Undralandi,“ segir Hrafnhildur og getur ekki varist hlátri. „Ég prófaði að fara í búningaprufu og allt það sem var gaman á sinn hátt en þegar upp var staðið fannst mér nú meira vit í að velja móttökustarfið og svo lærði ég allt þar. Ég þekki hótelstörfin en ég hefði alveg eins getað unnið við eitthvað annað,“ segir hún.

Hrafnhildur hafi svo unnið fjölda starfa í hótelbransanum en þá fundist formlega menntun skorta svo hún dreif sig í háskólanám samhliða störfunum og lauk á efsta degi MS-gráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði og þjálfunarsálfræði í skóla í London, eða applied positive psychology og coaching psychology, geta lesendur sagt það tíu sinnum hratt?

Strassborgarar stoltir af sínu

„Ég hef stundum hugsað örlítið um starfsferilinn minn sem eitthvert skrýtið kapphlaup en núna finn ég að púslið er að smella saman og ég finn mikinn tilgang með því sem ég er að gera,“ segir Hrafnhildur.

En hvernig eru frönsk jól?

„Jólin hér í Frakklandi snúast um góðan mat og samveru. Margir Frakkar gera sér dagamun með því að borða humar, krabba, skelfisk og gæsalifur sem er ekki á borði almúgans dags daglega,“ segir Krumma og bætir því við að jólin í Frakklandi skiptist mikið milli héraða.

Þannig ferðist margir langa leið heim úr vinnu til að fagna jólum með fjölskyldunni og oft verði töluverður rígur milli íbúa ólíkra héraða.

Ískalt á Íslandi. Frakkar spyrja Hrafnhildi jafnan hvort henni geti …
Ískalt á Íslandi. Frakkar spyrja Hrafnhildi jafnan hvort henni geti orðið kalt, hún sé jú Íslendingur. Hrafnhildur svarar þá að bragði að það geti vel gerst og þess vegna búi hún einmitt ekki á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk frá Strasbourg er mjög stolt af sínum jólamarkaði og segir alla aðra markaði eftirlíkingar, Normandie-búar segja buche-eftirréttina koma þaðan og jólakúlurnar grænu og rauðu koma frá Vosges að því er íbúar þar segja,“ útskýrir Hrafnhildur og hlær dátt.

Hvernig er þá að vera Íslendingur í Frakklandi?

„Hér geturðu verið hver sem er, þetta er svo gríðarlega fjölbreytt þjóðfélag. Nýir vinir sem þú kynnist hér eru til dæmist næstum aldrei af frönskum uppruna og allt er svo fjölbreytilegt. Fyrirtækin sem þú ert að vinna með, kúnnarnir sem þú ert að vinna með, þetta er bara bland í poka af öllum hefðum og öllum menningarkimum. Þú kemur til Íslands þar sem fólk segir „já, Frakkar eru bara Frakkar“ en þegar þú labbar úti á götu hér eru kannski tíu prósent þess fólks sem þú ert að hitta Frakkar. París er bara eins og Amsterdam, gríðarlega alþjóðleg blanda af fólki,“ segir Hrafnhildur.

Og jólahaldið hjá fjölskyldunni?

„Ja, það er nú kannski bara frekja í mér,“ segir viðmælandinn með gáska, „ég lagði það nú bara strax á borðið að á mínu heimili yrðu alltaf íslensk jól. Hér hefur alltaf verið læri í matinn og grjónagrautur, á okkar heimili hafa alltaf verið íslensk jól,“ segir skólastjórinn ákveðinn svo sem skólastjóra er háttur.

Fjölskyldan fransk-íslenska á jólum 2017 í París. Hrafnhildur segir mikla …
Fjölskyldan fransk-íslenska á jólum 2017 í París. Hrafnhildur segir mikla menningarblöndu í Frakklandi og aðeins um tíundi hluti þess fólks sem hún hitti á götu í París sé franskt að uppruna. Ljósmynd/Aðsend

Hún ítrekar hve mismunandi jólahefðirnar sú í Frakklandi. Í Suður-Frakklandi sé trúin ákaflega sterkt þema og margir fari í miðnæturmessu. Gjafir séu þar oftast opnaðar á jóladag og svo snæði fjölskyldur hádegisverð saman. „En alls staðar í Frakklandi snúast jólin samt um það sama, að borða góðan mat, drekka gott vín og vera með fjölskyldunni,“ segir Hrafnhildur.

Verður Íslendingum kalt?

„Frakkar eru líka ákaflega forvitnir um Ísland og spyrja mikið, segi ég að mér sé kalt fæ ég alltaf að heyra það sama: „En bíddu, þú ert Íslendingur?“ og ég játa það auðvitað en segi kannski að ég sé ekki lengur á Íslandi af því að mér var kalt þar,“ segir hún skellihlæjandi en Hrafnhildur er örsmá, aðeins 157 sentimetrar á hæð og því kannski stundum kalt.

„Ég er samt alveg meðalmanneskja á hæð í Frakklandi, fullt af fólki í kringum mig er minna en ég. Svo kemur maður til Íslands og lítur í kringum sig úti í búð og þá hugsa ég stundum „ó, ég er greinilega frekar lítil,“,“ segir Hrafnhildur og hlær af einlægni.

Ein spurning verður þó að lokum varla umflúin, Covid-19 sem sett hefur strik í alla heimsins reikninga?

„Vonir stóðu til þess að nýsmit kæmust undir 5.000 á dag fyrir 15. desember, en þann dag voru þau enn 11.000 og nú hefur útgöngubann verið sett. Þú mátt fara í göngutúr og út í apótek en fólk verður að skrá allt sem það gerir utanhúss í smitrakningarapp og nú er útgöngubann frá átta á kvöldin til sex á morgnana. Hótel og veitingastaðir er allt lok lok og læs og kannski opnar þetta 20. janúar, en það er bara kannski,“ segir Hrafnhildur.

Langþráðu meistaraprófi lokið í London í fyrra. Hrafnhildur hefur búið …
Langþráðu meistaraprófi lokið í London í fyrra. Hrafnhildur hefur búið í Frakklandi í 25 ár og segir hvert hérað hafa sínar jólahefðir og stundum ríki örlítill rígur á milli. Allt í góðu þó. Ljósmynd/Aðsend

Engin smit í skólunum enn þá

Hún segir ástandið gríðarlega þungbært, til dæmis fyrir heimilislaust fólk sem veitingastaðirnir gefi jafnan mat, en þar sé nú ekki á vísan að róa. „Það eru svo mikil út að borða stemmning í Frakklandi, flestar fjölskyldur borða úti tvisvar til þrisvar í viku en þetta er gjörbreytt núna. Sem betur fer hefur ekkert smit komið upp í skólunum hjá mér og ég vona bara að við náum að halda því þannig,“ segir Hrafnhildur Jónsdóttir, hótelfrömuður og skólastjóri í Frakklandi, að lokum við mbl.is í fróðlegu jólaspjalli.

Jólahaldið í Bláskógabyggð á Covid-tímum 2020. „Nýir vinir sem þú …
Jólahaldið í Bláskógabyggð á Covid-tímum 2020. „Nýir vinir sem þú kynnist hér eru til dæmist næstum aldrei af frönskum uppruna og allt er svo fjölbreytilegt. Fyrirtækin sem þú ert að vinna með, kúnnarnir sem þú ert að vinna með, þetta er bara bland í poka af öllum hefðum og öllum menningarkimum,“ segir Hrafnhildur í jólaspjalli við mbl.is. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert