Flæðir yfir vegi í Borgarfirði

Hvítá flæddi yfir bakka sína í nótt.
Hvítá flæddi yfir bakka sína í nótt. Ljósmyndir/Heiða Dís Fjeldsted

Vatn flæðir yfir vegi við Hvítá í Borgarfirði, en miklir vatnavextir voru á Vesturlandi í nótt vegna mikillar úrkomu. Jókst flæði í Hvítá rúmlega fjórfalt á nokkrum klukkustundum. Hvítárvallavegi hefur verið lokað vegna vatnavaxtanna.

Þórólfur Sveinsson á Ferjubakka segir í samtali við mbl.is að það hafi hækkað óvenjuhratt í ánni í nótt og segir hann það hafa komið sér á óvart, jafnvel þótt hann hafi búið lengi á svæðinu. Segir hann að jörðin hafi verið frosin og svo þegar hafi rignt mikið hafi vatnið ekki komist ofan í jörðina heldur bunað fram í hvelli.

Vatnsmagn í Hvítá hækkaði úr um 70 rúmmetrum á sekúndu upp í 420 rúmmetra á nokkrum klukkustundum. Einnig hefur hækkað mikið í Norðurá, en þar er vatnsmagn nú um 350 rúmmetrar á sekúndu eftir að hafa farið hæst í 400 rúmmetra, en vatnsmagnið var um miðjan dag í gær um 7 rúmmetrar á sekúndu. Því er um fimmtíuföldun að ræða þar.

Við Ferjukot við Hvítá.
Við Ferjukot við Hvítá. Ljósmynd/Heiða Dís Fjeldsted

Bjarki Kaldalón Friis, sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að eftir mikla rigningu í nótt hafi dregið úr úrkomu í morgunsárið. Þá hafi hitastig einnig lækkað og farið undir frostmark. Það eigi að draga úr vatnsmagni, en það geti þó gerst hægt. Ekki höfðu borist tilkynningar til Veðurstofunnar um tjón, annað en að í Skorradal flæddi vatn í kjallara sumarhúss. Bjarki segir að spáð sé kólnandi veðri vestanlands með éljagangi og snjókomu sem ætti að gera það að verkum að vatnsmagnið sem er uppi á heiðum bremsist af á leið sinni niður til sjávar. Telur hann því að áfram ætti að lækka í ám.

Heiða Dís Fjeldsted, íbúi á Ferjukoti við Hvítá, segir í samtali við mbl.is að flætt hafi yfir veginn á milli svokallaðra síkisbrúa, sem eru yfir síkið rétt vestan við brúna yfir Hvítá við Hvítárvelli. Hún segir að í morgun hafi áfram bætt í vatnið í grennd við bæinn og enn sjáist ekki að minnkað hafi í síkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert