Íslandsmeistari elur af sér hafnaboltastjörnu

Feðgarnir Kristófer Jónatan Bow og Jonathan Bow.
Feðgarnir Kristófer Jónatan Bow og Jonathan Bow. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingar eru ekki frægir fyrir afrek sín í hafnaboltaheiminum en það gæti breyst á næstu árum því Kristófer Jónatan Bow, sem talinn er einn sá efnilegasti í íþróttinni vestanhafs, mun að öllu óbreyttu verða fyrsti Íslendingurinn í MLB-deildinni.

Kristófer er kastari og þykir ákaflega fær á sínu sviði, eins og fjallað er um í grein vefmiðils sem sérhæfir sig í umfjöllun um hafnabolta þar sem Kristófer er sagður fimmti efnilegasti vestanhafs.

Íþróttaáhugafólk kveikir eflaust á Bow-nafninu en faðir hans, Jonathan Bow, gerði garðinn frægan í körfubolta hér á landi. Hann lék með Haukum, Keflavík, KR og Val og varð þrisvar Íslandsmeistari; 1992, 1993 og 2000.

Auk þess fékk Bow eldri íslenskan ríkisborgararétt og lék átta landsleiki á tíunda áratug síðustu aldar. 

Dvölin á Íslandi stendur upp úr

Foreldrar Kristófers, Jonathan og Ester Kristófersdóttir, eru bæði með tvöfalt ríkisfang og það er sonurinn líka. Feðgarnir eru samt ekki sleipir í íslenskunni og segir Jonathan að Ester sjái töluvert eftir því að hafa ekki haldið íslenskunni við hjá Kristófer þegar þau fluttu út.

„Ég spilaði í nokkrum Evrópulöndum á ferlinum en dvölin á Íslandi stendur upp úr. Ég er ótrúlega stoltur af stráknum og því sem hann hefur afrekað í íþróttinni og skólanum,“ segir Jonathan í samtali við mbl.is.

Kristófer býr sig undir að kasta.
Kristófer býr sig undir að kasta. Ljósmynd/Aðsend

Bow yngri er nýorðinn tvítugur og hefur búið vestanhafs frá eins árs aldri. Hann ólst upp í Las Vegas en pabbinn segir að sonurinn hafi æft nánast allar íþróttir á yngri árum.

„Hann æfði amerískan fótbolta, fótbolta, körfubolta og hafnabolta. Ég vildi leyfa honum að prófa flest þegar hann var ungur,“ segir Jonathan.

Hann æfði körfubolta og hafnabolta í framhaldsskóla en Jonathan segir að hafnaboltinn hafi tekið fram úr. „Hann getur samt enn troðið,“ segir Jonathan um soninn og bendir á að hann sé 192 sentimetrar að hæð.

Kristófer stefnir á MLB-deildina.
Kristófer stefnir á MLB-deildina. Ljósmynd/Aðsend

Verður líklega valinn næsta sumar

Kristófer fékk skólastyrk við CSN; College of Southern Nevada þar sem hann er á öðru ári. Kristófer hefur skrifað undir samning við háskóla í Arizona þess efnis að hann fari þangað næsta vetur en því er spáð að lið í MLB-deildinni velji hann næsta sumar.

„Hafnaboltinn er samt öðruvísi en flestar hinar íþróttirnar að því leyti að þegar menn eru valdir tekur það þá yfirleitt tvö til fimm ár að komast að í deildinni,“ segir Jonathan og bætir við að verði sonurinn valinn næsta sumar spili hann í framhaldinu í undirbúningsdeild. Þaðan er stefnan svo sett á frægð og frama í MLB-deildinni; bandarísku hafnaboltadeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert