Lögreglan hafði afskipti af Landakotskirkju

Landakotskirkja.
Landakotskirkja. mbl.is/Ómar Óskarsson

Helgihaldið sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af í gærkvöldi var í Landakotskirkju. Þetta staðfestir David B. Tencer, biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, í samtali við mbl.is. Um 120-130 manns voru samankomnir við helgihald í Landakotskirkju þegar lögreglu bar að garði.

Helgihaldi var þá lokið eins og David segir sjálfur: „Já, lögreglan kom eftir messu og gaf okkur ráð um hvernig betur mætti standa að sóttvörnum og þess háttar. Þeir voru mjög kurteisir og það var engin dramatík.“

Í dagbók lögreglu frá í gær sagði að lögregla hefði stöðvað helgihald í kirkju í hverfi 101 í Reykjavík vegna þess að þar hefðu á bilinu 120-130 kirkjugestir verið samankomnir og því um mögulegt sóttvarnalagabrot að ræða. Ekki var tilgreint um hvaða kirkju var að ræða, bara að hún væri í hverfi 101.

Ekki þjóðkirkjan

Fyrr í dag hafði Pétur Georg Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu, staðfest við mbl.is að ekki hefði verið um að ræða helgihald í þjóðkirkjunni.

Aðeins tvær kirkjur þjóðkirkjunnar eru í hverfi 101, Dómkirkjan og Hallgrímskirkja. Í Dómkirkjunni var haldin útvarpsmessa klukkan 18 í gær og á sama tíma var sjónvarpað á Hringbraut aftansöng sem hafði verið tekinn upp í Hallgrímskirkju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert