Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kallar ekki eftir afsögn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, eftir að hann var viðstaddur samkvæmi þar sem sóttvarnalög voru virt að vettugi. Hún segir þó að málið skaði traust milli flokka í ríkisstjórn.
„Ég geri ekki kröfu um afsögn ráðherra í þessu máli,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.
„En eins og þetta lítur út þá hefur rekstraraðili þessa staðar brotið sóttvarnarreglur og auðvitað hefði ráðherra átt að átta sig á því eins og hann hefur lýst yfir og beðist afsökunar á,“ bætir hún við.
Bjarni Benediktsson var viðstaddur samkvæmi í Ásmundarsal að kvöldi Þorláksmessu sem lögregla stöðvaði. Að sögn lögreglu voru um 40-50 manns saman komnir í Ásmundarsal. Staðarhaldarar hafa beðist afsökunar og það hefur Bjarni sjálfur gert sömuleiðis.
Katrín segir að vissulega séu það vonbrigði að málið hafi komið upp og að það skaði traust milli flokka í ríkisstjórn, en að samt sem áður megi ekki setja þann góða árangur í hættu, sem náðst hefur hér á landi í baráttunni við kórónuveiruna.
„Auðvitað er þetta skaðlegt fyrir traust milli flokka. Við höfum staðið í stórræðum sem ríkisstjórn og það hefur verið mikil samstaða um erfið mál. Við höfum náð einstökum árangri í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn og viljum ekki setja þá vinnu í hættu.“
Aðspurð segist Katrín hafa rætt málið við Bjarna Benediktsson. Það hefur hún einnig gert við Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformann Vinstri grænna, og ráðherra Vinstri grænna í ríkisstjórn.
„Ég hef rætt þetta við fjármála- og efnahagsráðherra, já, og komið á framfæri mínum vonbrigðum.“
„Eins og ég segi þá eru þetta auðvitað bara vonbrigði. Við erum öll að reyna að gera okkar besta.“
Katrín segist trúa því að þetta mál muni ekki hafa áhrif á þátttöku landsmanna í þeim sóttvarnaaðgerðum sem gripið er til hér á landi. Hún segist skynja reiði fólks.
„Ég hef trú á því að fólkið í landinu nálgist þetta af sömu skynsemi og það hefur gert hingað til í þessum faraldri. Við höfum náð einstökum árangri í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn og það er þátttöku landsmanna að þakka. Ég skynja auðvitað reiði fólks en tel og trúi að fólk hafi sig yfir það og taki þetta út með sömu skynsemi og það hefur gert hingað til.“