Vísbending um lélega afkomu rjúpunnar

Rjúpur.
Rjúpur. Ljósmynd/Pétur Alan Guðmundsson

Hlutfall rjúpnaunga var mjög lágt í afla rjúpnaskyttna í haust, samkvæmt greiningu á vængjum af veiddum rjúpum. „Þetta endurspeglar líklegast lélega viðkomu rjúpunnar í sumar frekar en mikil og hröð afföll ungfugla nú í haust,“ segir dr. Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur og rjúpnasérfræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands, í bréfi til rjúpnavina. Þar gerði hann grein fyrir stöðu aldursgreininga þann 22. desember sl.

Þá hafði hann fengið 1.409 rjúpnavængi til greiningar frá veiðitímanum 2020. Hann gerði ráð fyrir að fá um 1.000 vængi til viðbótar. Marktæk sýni voru komin fyrir Norðausturland og Austurland. Af meðfylgjandi töflu sést að ungahlutfallið er lægst á Vestfjörðum þar sem það var 2,2 ungar á kvenfugl en hæst á Vesturlandi, Norðausturlandi og Suðurlandi þar sem það var 3,6 ungar á kvenfugl. Meðaltalið yfir landið var 3,2 ungar á kvenfugl.

Samanburður við hlutfall unga í veiði á árunum 1995-2019 sýnir að ungahlutfallið árið 2020 er með því daprasta sem sést hefur síðustu 26 árin.

Ólafur hvetur veiðimenn sem eiga eftir að skila öðrum væng af veiddum rjúpum að senda vængina til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Nafn veiðimanns og hvernig er hægt að hafa samband við hann þarf að fylgja með auk upplýsinga um í hvaða landshluta rjúpurnar voru veiddar. Hægt er að skila vængjum til NÍ í Urriðaholti í Garðabæ eða í Borgum við Norðurslóð á Akureyri. Eins er hægt að senda vængina í böggli til NÍ þannig að viðtakandi greiði sendingarkostnað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert