Ekki eru efni til viðbragða af hálfu ríkissaksóknara vegna dóms yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Landsréttarmálinu svokallaða. Þetta kemur fram í skriflegu svari Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara við fyrirspurn mbl.is.
Í fyrirspurninni var spurt um möguleg áhrif af dómi MDE á þá dóma sem fallið höfðu í Landsrétti og dómararnir fjórir hefðu dæmt sem færðir voru til í uppröðun dómsmálaráðherra frá uppröðun hæfnisnefndar áður en skipað var upphaflega í dóminn. Einnig hvort embættið myndi bregðast eitthvað við niðurstöðunni og hvort embættið teldi rétt að gera kröfu um endurupptöku á fyrrnefndum málum.
Yfirdeild Mannréttindadómstólsins komst í niðurstöðu sinni að því að dómararnir fjórir hefðu verið ólöglega skipaðir.
Hafði lögmaðurinn Vilhjálmur Vilhjálmsson, sem rak málið fyrir Mannréttindadómstólnum, kallað eftir því að ríkissaksóknari tæki niðurstöðuna til skoðunar. Áður hafði ríkissaksóknari svarað fyrirspurninni þannig að málið væri til skoðunar, en nú liggur fyrir að embættið telur ekki efni til viðbragða.