Jólasnjórinn er fallinn á höfuðborgarsvæðinu, þó að hann sé tveimur dögum síðar á ferð en flestir hefðu viljað sjá hann. Þegar borgarbúar vöknuðu í morgun var fannhvít jörð og komið frost, eða nokkuð annað en gráminn og rigningin sem hafði legið yfir undanfarna daga.
Gera má ráð fyrir að margir þurfi aukatíma áður en haldið er út til að skafa af bílum sínum og þá er rétt að gæta að því að hálka er víða undir snjónum. Þá mátti sjá snjóruðningstæki á ferð um götur borgarinnar.
Á morgun er gert ráð fyrir norðanátt 10-18 m/s á höfuðborgarsvæðinu, en hitastig mun hækka og vera frá 0 upp í 4 gráður.
Samkvæmt vefmyndavélum Vegagerðarinnar er snjór nú víðast hvar á landinu, en mismikill þó.
Samkvæmt Veðurstofu Íslands má gera ráð fyrir að frost verði á bilinu 0 til 10 gráður, kaldast í innsveitum norðaustanlands.
Í kvöld er síðan útlit fyrir vaxandi norðanátt með éljum um landið norðan- og austanvert, en þurrt sunnan heiða. Á morgun er gert ráð fyrir að norðanáttin nái styrk hvassviðris eða storms. Búast má við rigningu eða slyddu á láglendi norðan- og austanlands, en hríð til fjalla. Hefur Veðurstofan vegna þessa gefið út gula viðvörun frá norðanverðum Vestfjörðum yfir Norðurland og Austfirði að Djúpavogi. Spáð er 15-23 m/s, talsverðri snjókomu og lélegu skyggni. Telur Veðurstofan að veðrinu fylgi versnandi akstursskilyrði á fjallvegum og eru samgöngutruflanir líklegar.
Á sunnanverðu landinu á morgun verður úrkomulítið og hiti á bilinu 1 til 5 stig, en varasamir vindstrengir við fjöll eins og svo oft áður í norðanáttinni.
Á mánudag er spáð norðan 8-13, en 13-18 austanlands. Dálítil él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert. Frost á bilinu 1 til 7 stig.