Olíugeymarnir áfram í Örfirisey

Olíubirgðir hafa verið geymdar þarna allt frá árinu 1950 þegar …
Olíubirgðir hafa verið geymdar þarna allt frá árinu 1950 þegar Olíufélagið hóf að byggja olíugeyma á svæðinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki er að sjá að sú stefna Reykjavíkurborgar að minnka umfang olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey um 50% á næstu fimm árum gangi upp, sé mið tekið af nýrri samþykkt stjórnar Faxaflóahafna.

Á fundi borgarráðs 7. maí 2019 var samþykkt tillaga borgarstjóra þess efnis að herða á því markmiði að fækka bensínstöðvum í borginni um helming. Á grundvelli þeirrar aðferðafræði og samningsmarkmiða sem lágu fyrir verði stefnt að því að það markmið náist fyrir árið 2025 en ekki árið 2030 eins og segir í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum.

Samhliða verði teknar upp viðræður um að umfang olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey minnki með tímanum og markmiðið verði að umfang hennar verði helmingi minna en nú er, eigi síðar en árið 2025.

Stjórn Faxaflóahafna kom saman til fundar 26. nóvember 2020 til að fjalla um Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2040. Í umsögn stjórnarinnar segir m.a. að Faxaflóahafnir geri ekki athugasemdir við að olíustöðin í Örfirisey verði lögð af fyrir lok gildistíma aðalskipulags en bendi þó á að sú tímalína kunni að vera óraunhæf.

„Spá Orkuspárnefndar (ágúst 2019) gerir ráð fyrir að notkun á kolefnaeldsneyti minnki um 27% á árunum frá 2020 til 2040. Notkun á lífeldsneyti hefur hins vegar aukist og er í dag um 8% af gegnumstreymi olíustöðvarinnar og fer vaxandi. Heildarmagn fer minnkandi en tegundum fer fjölgandi svo nettóáhrifin verða ekki veruleg og áframhaldandi þörf er á sama geymafjölda. Samkvæmt áhættumati ráðgjafastofunnar Cowi, árið 2007, var niðurstaðan sú að hagstæðasti kosturinn væri sá að olíustöðin yrði áfram í Örfirisey,“ segir meðal annars í umsögninni.

Þá bendir stjórnin á að lóðaleigusamningur við Olíudreifingu sé í gildi til ársins 2036 og gera Faxaflóahafnir ráð fyrir að hann verði framlengdur. Hins vegar styðji Faxaflóahafnir við frumkvæði til að bregðast við þróun í loftslagsmálum og breytingar sem mögulega þarf að gera þar að lútandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert