Ráðamenn sem hafa brotið reglurnar

Frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á heimsbyggðinni hefur almenningi verið gert að hlíta ströngum reglum; takmarka samkomur, aflýsa viðburðum, bera grímu, ekki kaupa áfengi á tilteknum tímum sólarhrings og þar fram eftir götunum.

Nokkuð hefur þó borið á því að ráðamenn séu staðnir að því að fylgja ekki þeim reglum sem þeir hafa sjálfir sett. Hér verður tæpt á nokkrum dæmum en ljóst að slík samantekt verður aldrei tæmandi. 

Ungverskur Evrópuþingmaður í „kynlífsveislu“

Ungverski Evrópuþingmaðurinn Jozs­ef Szajer var handtekinn í byrjun mánaðar er lögregla í Brussel stöðvaði „kynlífsveislu“ hans og 24 annarra karlmanna. Szajer reyndi að flýja með því að stökkva út um glugga en slasaðist í fallinu og náði lögregla að hlaupa hann uppi. Mennirnir voru sektaðir um 250 evrur hver fyrir brot á sóttvarnareglum. Szajer sagði af sér þingmennsku og sagði sig um leið úr Fidez, flokki Viktors Orbáns forsætisráðherra.

Í þessari byggingu, ofan við hinsegin barinn Monroe, var íhaldsmaðurinn …
Í þessari byggingu, ofan við hinsegin barinn Monroe, var íhaldsmaðurinn Jozsef Szajer gripinn ásamt 24 karlmönnum við brot á sóttvarnareglum. AFP

Heilbrigðisráðherra Tékklands

Hinn 21. október birti tékkneska slúðurblaðið Blesk myndir af Roman Prymula, heilbrigðisráðherra landsins, þar sem hann yfirgaf veitingastað seint að kvöldi og settist í aftursæti ráðherrabílsins grímulaus. Tveimur dögum áður hafði Prymula sjálfur kynnt hertar reglur gegn veirunni sem fólu meðal annars í sér lokun veitingastaða og útvíkkaða grímuskyldu, þar með talið þegar ferðast er í leigubíl eða með einkabílstjóra.

Prymula sagði af sér nokkrum dögum síðar, en þá hafði Andrej Babis forsætisráðherra þegar fordæmt framferði hans og lýst því yfir að honum yrði vikið frá störfum ef hann segði ekki af sér sjálfur.

Ljósmyndarar gulu pressunnar felldu Roman Prymula, heilbrigðisráðherra Tékklands. Hann hafði …
Ljósmyndarar gulu pressunnar felldu Roman Prymula, heilbrigðisráðherra Tékklands. Hann hafði aðeins verið í embætti í rúman mánuð. AFP

Aðstoðarmaður Boris Johnsons

Í lok mars lagði Dominic Cummings, aðstoðarmaður Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, í langferð frá Lundúnum til Durham á Norðaustur-Englandi. Konan hafði daginn áður veikst og sýnt einkenni kórónuveirunnar og ætluðu hjónin að koma syninum í pössun hjá systur konunnar, sem bjó í Durham. 

Fjórum dögum áður hafði breska ríkisstjórnin gefið út þau tilmæli til almennings að fólk „yrði að halda sig heima“ vegna stöðu faraldursins. Allir sem byggju á heimilum þar sem einn eða fleiri væru með einkenni kórónuveirunnar ættu að halda sig heima í 14 daga.

Dominic Cummings, aðstoðarmaður Boris Johnsons forsætisráðherra Bretlands.
Dominic Cummings, aðstoðarmaður Boris Johnsons forsætisráðherra Bretlands. AFP

Tilmælin eru þó ekki klippt og skorin því einnig er tekið fram að ef fólk á börn geti verið erfitt að fylgja reglunum að öllu leyti. „Fylgdu þeim eins vel og þú getur miðað við aðstæður,“ segir á heimasíðu bresku stjórnarinnar. Sérstaklega var þó tekið fram að undir „nauðsynleg ferðalög“ féllu ekki ferðalög á önnur heimili hvort sem það væri til að einangra sig eða ekki. „Fólk verður að halda sig á aðalheimili sínu.“

Cummings greindist með veiruna tveimur dögum síðar. Hann baðst ekki afsökunar og sagðist hafa hegðað sér „skyn­sam­lega, lög­lega og af heil­ind­um“ með því að koma barninu í pössun. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar, sem og þingmenn úr röðum Íhaldsflokksins, kölluðu eftir því að Cummings yrði sagt upp störfum en Boris Johnson forsætisráðherra lagði blessun sína yfir bílferðina. Cummings, sem stundum er kallaður arkitektinn á bak við Brexit, mun láta af störfum um áramót þegar aðlögunartímabili Breta úr Evrópusambandinu lýkur.

Heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands

David Clark, heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands, sagði af sér embætti í júlí en stuttu áður hafði landinu tekist að kveða veiruna alfarið í kútinn með hörðu útgöngubanni og lokun landamæra. Í apríl, þegar útgöngubann stóð sem hæst, hafði Clark hins vegar tvívegar orðið uppvís að því að fara gegn tilmælum og reglum eigin ríkisstjórnar.

Hafði hann keyrt með fjölskyldu sína 20 kílómetra leið frá heimili þeirra til að fara í gönguferð á ströndinni fyrstu helgi útgöngubannsins. Þá hafði hann einnig stundað fjallahjólreiðar meðan á útgöngubanninu stóð, þótt það væri ekki jafnskýrt brot á reglum að því er fram kemur í umfjöllun nýsjálenska dagblaðsins New Zealand Herald.

Clark hafði þegar í apríl boðið Jacindu Ardern forsætisráðherra að segja af sér, en hún hafnað því og sagt nauðsynlegt að hafa samfellu í viðbrögðum við faraldrinum. Þegar tekist hafði að vinna bug á faraldrinum í júlí sagði hann svo af sér.

David Clark, heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands, sagði af sér í júlí eftir …
David Clark, heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands, sagði af sér í júlí eftir að hafa ferðast að óþörfu meðan á útgöngubanni stóð í apríl.

Landlæknir Skota

Catherine Calderwood, landlæknir Skotlands, sagði af sér í apríl eftir að myndir voru birtar af henni og fjölskyldu hennar á ferðalagi um Earlsferry um klukkutíma frá heimili hennar.

Calderwood hafði tekið þátt í blaðamannafundum stjórnvalda og sjónvarpsauglýsingum þar sem hún hvatti landsmenn til að halda sig sem mest heima.

Hún baðst afsökunar á mistökunum, en sagðist ætla að halda áfram og naut til þess stuðnings Nicolu Sturgeon forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar. Eftir mikið fjölmiðlafár fór þó svo að hún sagði af sér.

Catherine Calderwood baðst afsökunar og sagði af sér.
Catherine Calderwood baðst afsökunar og sagði af sér. AFP

Nicola Sturgeon

Nicola Sturgeon lenti sjálf í vandræðum á dögunum vegna brota á sóttvarnareglum. Skoska blaðið Sun birti stuttu fyrir jól myndir af henni á bar þar sem hún var ekki með grímu fyrir vitum. Sturgeon var þá í erfidrykkju opinbers starfsmanns sem hafði látist af völdum Covid-19.

Sturgeon baðst afsökunar á því sem hún kallaði „heimskuleg mistök“ en samkvæmt sóttvarnareglum ber fólki að nota grímu innandyra nema þegar það situr. 

Nicola Stuegeon. Í þetta sinn með grímu.
Nicola Stuegeon. Í þetta sinn með grímu. AFP

Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings

Í september fór Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, á hárgreiðslustofu í heimaborg sinni, San Francisco í Kaliforníu. Myndir úr öryggismyndavél hárgreiðslustofunnar voru sendar á sjónvarpsstöðina Fox News, en þar mátti sjá Pelosi án grímu í fylgd grímuklæddrar hárgreiðslukonu. Á þeim tíma var hárgreiðslustofum ekki heimilt að taka á móti viðskiptavinum innandyra en degi síðar var heimilað að sinna gestum utandyra.

Pelosi hafði ítrekað gagnrýnt Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að nota ekki grímu og ítrekað mikilvægi þess að „hlusta á sérfræðinga“.

Pelosi sagði í kjölfarið að hún hefði verið leidd í gildru þar sem hárgreiðslukonan hefði sannfært hana um að heimilt væri að taka á móti einum viðskiptavini í einu, en myndunum síðan dreift í fjölmiðla. „Þetta var gildra og ég tek fulla ábyrgð á því að hafa fallið í þessa gildru.“

Mynd úr öryggismyndavél hárgreiðslustofunnar.
Mynd úr öryggismyndavél hárgreiðslustofunnar. Ljósmynd/eSalon

Forsætisráðherra Grikklands

Í lok nóvember voru myndir birtar af Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, í fjallahjólaferð í Parnitha-fjöllum, um 45 kílómetrum norðan við höfuðborgina Aþenu. Af myndum að dæma virti Misotakis hvorki fjarlægðarreglur né bar grímu þar sem hann stillti sér upp ásamt fimm öðrum fjallahjólamönnum.

Misotakis neitaði að hafa brotið reglurnar og benti á að samkvæmt reglum væri heimilt að stunda útivist og hreyfingu í sama héraði og fólk byggi.

Mitsotakis fyrir miðju, með hjálminn.
Mitsotakis fyrir miðju, með hjálminn.

Fjármálaráðherra Íslands

Á aðfangadag bárust fréttir um að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Íslands, hefði verið meðal gesta í samkvæmi sem lögreglan leysti upp í Ásmundarsal um hálftíma fyrir miðnætti. Samkvæmt sóttvarnareglum mega aðeins tíu manns koma saman en í samkvæminu voru á fimmta tug gesta. Þá var vín haft við hönd, en vínveitingastöðum er gert að loka klukkan 22.

Bjarni baðst afsökunar á því að hafa ekki verið meira á varðbergi og sagðist hafa skilning á vonbrigðum fólks þegar reglum er ekki fylgt. Hann hefði þó ekki í hyggju að segja af sér. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsti yfir stuðningi við Bjarna en sagði þó að málið skaðaði traust milli ríkisstjórnarflokkanna.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert