Tvö smit greindust innanlands í gær samkvæmt bráðabirgðatölum. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is. Annar þeirra sem greindust var í sóttkví en hinn utan sóttkvíar.
Ekkert smit greindist á landamærum, en í gær var ekkert flug til eða frá landinu um Keflavíkurflugvöll.
Ekki var mikið um sýnatökur í gær þar sem allir sýnatökustaðir voru lokaðir, en tölurnar geta m.a. náð til sýna sem greind voru eftir að síðustu tölur voru birtar.
Opnað hefur verið fyrir sýnatöku á ný í dag á höfuðborgarsvæðinu og þá var í skamman tíma opið á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Sjá má nánari upplýsingar um hvenær opið er í sýnatökur um jól og áramót hér.