Var heimilt að endurbirta útdrátt úr minningargrein

Téðar minningargreinar birtust fyrst í Morgunblaðinu.
Téðar minningargreinar birtust fyrst í Morgunblaðinu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur úrskurðað að fjölmiðillinn man.is hafi ekki brotið siðareglur með birtingu útdrátta úr minningargreinum í Morgunblaðinu um systurson kæranda til nefndarinnar. 

Kæran barst siðanefndinni 6. nóvember þessa árs og var tekin til umfjöllunar 24. nóvember og 15. desember. 

Í bréfi kæranda til siðanefndar segir að hinn 28. október hafi birst eftir kæranda og tvo aðra minningargreinar í Morgunblaðinu um systurson hans. Sama dag hafi birst frétt á vefsíðunni man.is um andlát systursonarins. Innihald fréttarinnar var endursögn á téðum minningargreinum með sláandi fyrirsögn. Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að erfitt sé að dæma af efnistökum umrædds vefmiðils hvort um sé að ræða fréttanetmiðil eða vefsíðu af öðrum toga. Í svörum kærðu var því haldið fram að hin kærða grein byggðist alfarið á minningargreinum Morgunblaðsins. 

Í úrskurði nefndarinnar segir að birting minningargreinar í dagblaði sé opinber birting. Taldi siðanefndin að endurbirting eða útdráttur úr minningargrein í öðrum miðli færi ekki í bága við siðareglur BÍ, enda væri þar ekki vikið frá upprunalegum texta eða efnið brenglað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert